Enn er óvissa um þinglok en engin niðurstaða varð um afgreiðslu stjórnarskrárfrumvarpsins á fundi sérnefndar þingsins í morgun. Nefndin mun koma aftur saman í hádeginu. Auk þess funda formenn flokkanna í dag.
Guðbjartur Hannesson, forseti Alþingis, segir að aðalatriðið sé að ljúka stjórnarskrármálinu í einhverri sátt. Markmiðið sé að ljúka þingstörfum í dag og ef sátt náist geti þingstörfin gengið hratt fyrir sig.
Stjórnarskrármálið er ekki á dagskrá þess þingfundar, sem hófst klukkan 10:30. Sá fundur hófst á umræðu um störf þingsins og þar hóf Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, á ný umræðu um skatta og spurði hvað Vinstri grænir ætluðu að lækka laun opinberra starfsmanna mikið.