VG bætir við sig en fylgi Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks minnkar samkvæmt nýrri fylgiskönnun Capacent Gallup um fylgið á landsvísu. Samfylkingin nýtur mests fylgis eða 30,7%. Fylgi við Framsóknarflokkinn, Borgarahreyfinguna og Frjálslynda flokkinn hefur aukist frá því í fyrstu viku apríl.
VG fengi nú 19 þingmenn og myndi bæta við sig tíu þingmönnum, samkvæmt nýjustu fylgiskönnun Capacent Gallup sem gerð var 8.-14. apríl. Flokkurinn fékk níu þingmenn í kosningunum 2007. Fylgi við VG jókst úr 26% í fylgiskönnun Capacent Gallup sem gerð var 1.-7. apríl s.l. í 28,2% nú. VG fékk 14,4% atkvæða í alþingiskosningunum 2007.
Fylgi við Samfylkinguna minnkaði úr 32,6% í byrjun apríl í 30,7% nú. S-listinn fengi nú 21 þingmann en fékk 18 þingmenn og 26,8% atkvæða í alþingiskosningunum 2007.
Sjálfstæðisflokkurinn naut nú stuðnings 23,3% svarenda og myndi samkvæmt því fá 16 þingmenn eða níu þingmönnum færra en í kosningunum 2007. Í könnuninni í byrjun mánaðarins var fylgið við flokkinn 25,7%. Minna má á að þegar nýjasta skoðanakönnunin var gerð var mikil umræða í fjölmiðlum um stóra styrki sem flokkurinn fékk í árslok 2006. D-listinn fékk 36,6% atkvæða í kosningunum 2007 og 25 þingmenn.
Framsóknarflokkurinn styrkti stöðu sína milli fylgiskannana og var nú með 11,1% fylgi en 9,8% í byrjun apríl. Samkvæmt þessari niðurstöðu fengju Framsóknarmenn sjö þingmenn eða jafn marga og eftir kosningarnar 2007.
Borgarahreyfingin sækir í sig veðrið og er komin með 4,4% fylgi en var með 3,6% í byrjun apríl. Frjálslyndi flokkurinn mældist nú með 2% fylgi en var með 1,1% í næstu könnun á undan. Fylgi Lýðræðishreyfingarinnar mældist nú 0,4%. Þrír síðasttöldu flokkarnir kæmu ekki manni á þing enda undir 5% mörkunum. Frjálslyndi flokkurinn fékk fjóra þingmenn í kosningunum 2007.
Ríkisstjórnin nýtur nú stuðnings 59,4% svarenda og 40,6% styðja ekki stjórnina.
Niðurstöður um fylgi flokkanna á landsvísu eru úr net- og símakönnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Morgunblaðið og Ríkisútvarpið dagana 8. – 14. apríl s.l. Úrtakið í netkönnuninni var tilviljunarúrtak úr Viðhorfahópi Capacent Gallup en úrtakið í símakönnuninni var tilviljunarúrtak úr þjóðskrá. Heildarúrtaksstærð var 2.465 manns 18 ára og eldri. Svarhlutfall var 60,7%.
Fylgistölur eru reiknaðar út frá svörum við þremur spurningum:
„Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa?“
Þeir sem voru óákveðnir voru spurðir: „En hvaða flokkur eða listi yrði líklegast fyrir valinu?“ Þeir sem enn voru óákveðnir voru spurðir: „Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?“ Fyrir þá sem sögðu líklegra að þeir kysu einhvern hinna flokkanna voru reiknaðar út líkur þess að þeir myndu kjósa hvern flokk, út frá svörum þeirra sem tóku afstöðu í fyrstu tveimur spurningunum.