„Aldrei stóð til að þingframboð fengju gjaldfrjálsa kynningu í Sjónvarpinu. Þegar tvö framboð óskuðu eftir slíkri kynningu, kannaði Ríkisútvarpið áhuga allra framboða á slíkri kynningu. Skýrt var tekið fram í tölvubréfi vegna þessa, að kynningar af þessu tagi yrðu einungis settar á dagskrá reyndist áhugi hjá meirihluta framboða. Svo reyndist ekki vera,“ segir Ingólfur Bjarni Sigfússon, varafréttastjóri RÚV.
Fyrr í dag sendi Borgarahreyfingin frá sér yfirlýsingu þar sem því var mótmælt að RÚV hefði hætt við 10 mínútna gjaldfrjálsar kynningar stjórnmálaflokkanna í sjónvarpinu. Í yfirlýsingunni var sagt að rök RÚV fyrir ákvörðuninni væru ólýðræðisleg. Verið væri að þagga niður í nýjum framboðum.
Varafréttastjóri RÚV segir yfirlýsingu Borgarahreyfingarinnar, ekki einungis misvísandi heldur beinlínis ranga. Tölvupóstsamskipti milli talsmanns Borgarahreyfingarinnar og varafréttastjóra RÚV sýna að meirihluti framboðanna hafði ekki áhuga á því að Sjónvarpið skapaði rými í dagskrá fyrir kynningarþætti. Málið náði því ekki lengra í ljósi þessa dræma áhuga.