Takk fyrir, búið

Þingmenn kvöddust eftir að þingfundi var slitið í kvöld.
Þingmenn kvöddust eftir að þingfundi var slitið í kvöld. mbl.is/Golli

„Takk fyrir, búið," sagði Gunnar Svavarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, þegar hann hélt sína síðustu þingræðu á Alþingi í kvöld. Hann er ekki í framboði til þingkosninganna, sem fara fram eftir viku.

Þingfundum var frestað á níunda tímanum í kvöld eftir að samþykkt höfðu verið lög um bann við kaup á vændi, lög um álver í Helguvík og um skaðabætur. Frumvarp um stjórnskipunarlög var ekki rætt frekar og lauk því aldrei annarri umræðu um málið. 

Fram kom í máli Guðbjarts Hannessonar, forseta Alþingis, að mikill fjöldi þingmála hefði verið afgreiddur undir lok þingsins og tengdust málin flest vandamálum heimila og fyrirtækja.  Alls voru afgreidd 100 frumvörp og 13 þingsályktunartillögur á því þingi, sem lauk í kvöld. Þá sagði Guðbjartur, að á tímabilinu eftir að minnihlutastjórnin tók við völdum hefðu fleiri nefndar- og þingmannafrumvörp verið afgreidd að jafnaði en á fyrri þingum, eða 17 nefndarfrumvörp og 5 þingmannafrumvörp. Sagði Guðbjartur, að þetta væri vonandi vísbending um vaxandi frumkvæði Alþingis í lagasetningu.

Guðbjartur þakkaði sérstaklega Sturlu Böðvarssyni fyrrverandi forseta Alþingis, fyrir samstarfið en Sturla býður sig ekki fram aftur. Hann óskaði einnig Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fyrrverandi formanni, góðs bata í veikindum sínum. Einnig nefndi hann nokkra þingmenn, sem ekki verða í kjöri eftir viku, þá Árna M. Mathiesen, Björn Bjarnason og Magnús Stefánsson, sem allir hafa gegnt ráðherraembættum, Lúðvík Bergvinsson, sem hefur verið formaður þingflokks Samfylkingar, Kristinn H. Gunnarsson, Einar Már Sigurðarson og Guðfinnu S. Bjarnadóttir sem setið hafa í forsætisnefnd þingsins og Ellert B. Schram, aldursforseta þingsins.

Guðbjartur að þau Geir H. Haarde, Guðni Ágústsson og Valgerður Sverrisdóttir, hefðu áður verið kvödd á Alþingi.

Alþingi verður væntanlega kallað saman að nýju þegar ný ríkisstjórn hefur verið mynduð í kjölfar alþingiskosninganna 25. apríl. 

Fundum Alþingis var frestað í kvöld fram yfir kosningar.
Fundum Alþingis var frestað í kvöld fram yfir kosningar. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert