Sjálfstæðisflokkurinn vill að íslensk stjórnvöld vinni að því í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að Ísland taki upp evru í lok áætlunar sjóðsins. Segir í tilkynningu frá flokknum að með þessu leggi hann þó ekki til einhliða upptöku gjaldmiðilsins.
Í fréttatilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum segir að Evrópuskýrsla flokksins geti eingöngu talist áfangaskýrsla vegna þess skamma tíma sem Evrópunefnd flokksins hafði til að vinna hana.
Mikilvægt sé að halda áfram þeirri vinnu að loknum kosningum með aðkomu allra flokka og hagsmunasamtaka.
Fréttatilkynningin er svohljóðandi:
„Nefnd um þróun Evrópumála hóf störf sumarið 2008 og stóð í upphafi til hún myndi starfa fram til vorsins 2011. Sökum þess hve skamman tíma nefndin hafði til starfa er ljóst að sú skýrsla sem nú liggur fyrir getur einungis talist vera áfangaskýrsla.
Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að strax að loknum kosningum verði vinnu sem þessari haldið áfram með aðkomu allra flokka og hagsmunasamtaka og ljúki því hagsmunamati sem nauðsynlegt er að fari fram á framtíðar fyrirkomulagi samvinnu Íslands og Evrópusambandsins sem og mati á öðrum álitamálum er upp kunna að koma.
Í kjölfar þess er mikilvægt að sátt náist á milli allra stjórnmálaflokka um áframhaldandi málsmeðferð.
Í bókun sem Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram við lok nefndarstarfsins kemur fram það mat að helsti kostur þess að taka upp nánara samstarf við Evrópusambandið sé sá efnahagslegi stöðugleiki getur falist í að taka upp hinn sameiginlega gjaldmiðil Evrópusambandsins, evruna.
Í nýlegri skýrslu á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er hvatt til að Evrópusambandið slaki verulega á þeim skilyrðum sem sett eru fyrir evruaðild þannig að ríki í Mið- og Austur-Evrópu geti tekið upp evru í stað núverandi gjaldmiðla.
Sjálfstæðisflokkurinn telur að leita eigi eftir samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að stefnt verði að því að íslensk stjórnvöld og IMF vinni að því í sameiningu að í lok áætlunarinnar geti Íslendingar tekið upp evru sem gjaldmiðil.
Í þessu felst ekki að Sjálfstæðisflokkurinn leggi til einhliða upptöku evru heldur að íslensk stjórnvöld leiti eftir samvinnu við IMF um að Íslendingar geti tekið upp evru sem gjaldmiðil í samstarfi við Evrópusambandið."