Kosningakjötsúpa

Frá veislu Framsóknarflokksins í Borgartúni í Reykjavík í dag.
Frá veislu Framsóknarflokksins í Borgartúni í Reykjavík í dag. mbl.is/Golli

Framsóknarflokkurinn í Reykjavík bauð í dag til alþjóðaveislu þar sem á borðum var íslensk kjötsúpa auk rétta  frá mismunandi heimshornum. Þar gátu gestir bæði kynnst því alþjóðasamfélagi sem er við lýði á Íslandi og kynnt sér stefnu Framsóknarflokksins í málefnum innflytjenda.

Einar Skúlason, frambjóðandi flokksins, stóð fyrir veislunni og segir að um 100 manns hafi mætt. Hann eldaði sjálfur íslenska kjötsúpu samkvæmt leyniuppskrift frá Melrakkasléttu, en einnig voru þarna réttir frá Taílandi, Srí Lanka, Kólumbíu, Litháen, Póllandi og fleiri löndum. 

Á heimasíðu Framsóknarflokksins segir, að flokkurinn hafi verið í fararbroddi í málefnum innflytjenda og m.a. haft forgöngu um stefnumótun ríkisstjórnarinnar í málefnum innflytjenda í byrjun árs 2007, gert fyrsta þjónustusamning félagsmálaráðuneytis við Alþjóðahúsið, haft forgöngu að taka reglubundið á móti hópum flóttamanna eftir langt hlé og vilji nú taka sérstaklega á réttindum minnihlutahópa með því að innleiða tilskipanir ESB um bann við mismunun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert