Percy Westerlund, sendiherra Evrópusambandsins gagnvart Noregi og Íslandi, segir í viðtali við Ríkisútvarpið að það sé mikill misskilningur hjá Sjálfstæðisflokknum á Íslandi að halda að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) geti komið því til leiðar eða haft milligöngu um að Íslendingar geti tekið upp evru.
Þetta kom fram í Speglinum í kvöld.
Í þættinum tók Joaquín Almunia, sem fer með peninga- og efnahagsmál fyrir Evrópusambandið, í sama streng. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi oftar en einu sinni lýst því yfir að hún sé andvíg einhliða upptöku evru.
Í auglýsingum hefur komið fram að Sjálfstæðisflokkurinn telji að leita eigi eftir samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að íslensk stjórnvöld og sjóðurinn vinni að því í sameiningu að í lok efnahagsáætlunar Íslands og sjóðsins geti Íslendingar tekið upp evru sem gjaldmiðil í sátt og samvinnu við Evrópusambandið.