Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, sagðist í Zetunni í mbl.is sjónvarpi í dag, vilja beita sér fyrir samkomulagi um að Ríkisendurskoðun fari yfir alla styrki til stjórnmálaflokka og meti hvort um hugsanleg hagsmunatengsl við fyrirtæki hafi verið að ræða. Nefndi Jóhanna tímabilið 2000-2007.
„Það mega ekki vera svona grunsemdir uppi um að það séu hagsmunatengsl og óeðlileg afskipti af fyrirtækjum. Það verður allt að vera uppi á borði. Og ég mun skoða það í fullri alvöru að það verði allt uppi á borðum og að Ríkisendurskoðun leggi hlutlaust mat á það," sagði Jóhanna.
Agnes Bragadóttir spurði Jóhönnu hvort rétt væri, að Samfylkingin hefði árið 2006 fengið stórkostlega niðurfellingu skulda í fjármálastofnunum. Jóhanna sagðist ekkert hafa komið að fjármálum Samfylkingarinnar og hefði því ekki hugmynd um það en sagðist myndu sjá til þess að allt yrði upplýst sem hægt yrði og að allt gangi jafnt yfir alla flokkana hvað það varðar.