„Það er algjörlega óumflýjanlegt að hér verði farið í skuldaleiðréttingu. Hagfræðingar um allan heim tala nú um það að við komumst ekki út úr þessari kreppu, ekki bara Íslendingar heldur aðrar þjóðir líka, nema við gerum okkur grein fyrir því að það er búið að lána meira heldur en hægt er að greiða til baka, það þurfi að fara í skuldaleiðréttingu,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins í Zetunni á mbl.is.
Hann sagði í rauninni hvergi jafn mikilvægt og á Íslandi að ráðast í slíka leiðréttingu og að hvergi væri jafn gott tækifæri til þess eins og hér.
„Meðal annars vegna þess að hér er fjármálakerfið að langmestu leyti hrunið, það er búið að afskrifa og verið að afskrifa það sem lánað var til Íslands, skuldabréf bankanna, það er verið að selja þau á eitt til tvö prósent, þannig að menn gera ráð fyrir að fá kannski eina eða tvær evrur til baka fyrir hverjar hundrað evrur sem þeir lánuðu hingað.“
Sigmundur segir þetta ekki snúast um að auka kostnað eða að niðurfærslan lendi á ríkinu. Þetta snúist fyrst og fremst um að lágmarka tap. Hann sagði að það hefðu kannski verið mistök hjá Framsóknarflokknum að tala um niðurfellingu skulda. Réttara væri að tala um leiðréttingu lána miðað við vísitölu fyrir hrun bankanna.
„Tillögur okkar ganga út á það að þær afskriftir sem átt hafa sér stað og eru að eiga sér stað, við flutning lána úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju, séu að einhverju leyti látnar ganga áfram til þeirra sem skulda,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.