Grímuklædd ungmenni réðust inn í kosningaskrifstofu Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi og slettu lituðu skyri á húsbúnað og veggi. Fólkið var einnig með fiskúrgang í poka en Kristínu Sævarsdóttur, kosningastjóra, tókst að koma í veg fyrir að úrganginum væri kastað.
„Ég hljóp öskrandi á móti þeim þegar ég sá hvers kyns var og þau lögðu þá á flótta," sagði Kristín, sem segir að ungmennin hafi verið með grímur og hettur yfir höfðunum.
Kristín sagði þetta einkennilega baráttuaðferð í kosningabaráttu. Hún og annar starfsmaður skrifstofunnar, sem er í Firðinum í Hafnarfirði, voru þar ein: „Það var enginn þingmaður hér," sagði hún.