„Það er auðvitað svo að það er Seðlabankinn en ekki stjórnmálamennirnir sem ákvarða vextina. Það hefur verið venjan hérna á Íslandi og víðast hvar. En nú lít ég svo á að þetta sé orðið það aðkallandi mál, og í rauninni bara spurning um að þjóðfélagið komist af, geti haldið áfram að starfa, að vextirnir séu lagaðir hérna, að það sé orðið fullt tilefni til þess að stjórnmálamenn grípi fram fyrir hendurnar á Seðlabankanum og fari fram á vaxtalækkun,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins í Zetunni á mbl.is.
Sigmundur Davíð sagði skuldaleiðréttingu aðkallandi og sömuleiðis þyrfti að koma nýju bönkunum af stað. Vextir voru þriðja atriðið sem Sigmundur Davíð nefndi, spurður um þau mál sem væru forgangsmál í dag. Hann sagði algjörlega óverjandi að viðhalda þessum háu vöxtum við núverandi aðstæður.
„Og það er ekki einu sinni svo að með því sé verið að styrkja gengi krónunnar heldur hefur þetta í rauninni þveröfug áhrif eins og við sjáum núna, aftur og aftur, dag eftir dag. Þessir stóru gjalddagar á jöklabréfum og öðrum íslenskum krónueignum útlendinga, verða til þess að við missum svo mikla peninga úr landi. Eins og þið vitið þá má ekki flytja höfuðstólinn út en það má flytja vextina, skipta þeim í evrur og þá er þeim skipt á niðurgreiddu gengi Seðlabankans. Þannig að þessir háu vextir þýða að það er verið að taka út meira af evrum, skipta meiru af krónum yfir í evrur og taka þær út en ella. Þannig að þetta hefur í raun öfug áhrif,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins í samtali við Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur og Karl Blöndal í Zetunni á mbl.is