Mun færri konur eru á framboðslistum flokkanna fyrir alþingiskosningarnar á laugardag en í kosningunum 2003 og 2007. Hlutfall kvenna er nú rúm 40% en var rúm 47% árið 2007. Lakast er hlutfall kvenna í Norðausturkjördæmi eða 33% en hæst er hlutfallið í Reykjavíkurkjördæmi norður, 45%. Hlutfallslega fæstar konur eru í framboði fyrir P-lista Lýðræðishreyfingarinnar eða 19% en flestar hjá Samfylkingunni og Vinstri grænum, tæplega 51%.
Færri konur en í tvennum síðustu kosningum
Alls eru 882 einstaklingar á framboðslistum framboðanna 7 fyrir alþingiskosningarnar 25. apríl. Konur eru 355 eða 40,25% en karlarnir 527 eða 59,75%.
Ef kynjaskipting á framboðslistum er skoðuð í tvennum síðustu alþingiskosningum má sjá að heldur hefur hallað á konur. Árið 2003 var hlutfall kvenna á framboðslistum 42,4% en karla 57,6%. Árið 2007 lagaðist hlutfallið verulega og var hlutfall kvenna 47,2% á framboðslistum en karla 52,8%. Nú hrapar hlutfallið á ný eins og áður segir.
Norðausturkjördæmi sker sig nokkuð úr hvað varðar kynjahlutföll en karlar eru 67% frambjóðenda en konur aðeins 33%.
Lýðræðishreyfingin karlaflokkur
Verulegur munur er á kynjaskiptingu á framboðslistum flokkanna. Hlutfall kvenna er hæst á framboðslistum Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Þar eru konur í meirihluta eða 50,8% en karlar 49,2%. Framsókn kemur næst með 49,2% hlutfall kvenna en karlar eru 50,8% frambjóðenda framsóknar. Áberandi lakast er hlutfall kvenna hjá P-lista Lýðræðishreyfingarinnar eða 10,04%, hlutfall karla á framboðslistum Lýðræðishreyfingarinnar er 80,95%.
Karlar leiða listana
Samtals eru 42 framboðslistar í kjördæmunum sex. Konur leiða aðeins 11 listanna, karlar leiða 31 lista. Ein kona er því í leiðtogasæti á móti hverjum þremur körlum. Vinstri hreyfingin sker sig úr að þessu leyti, konur leiða lista í þremur kjördæmum og karlar í þremur kjördæmum.
Svipuð skipting kynja í fimm efstu sæti
Lítill munur er á kynjum þegar skoðuð er skipan fimm efstu sæta á framboðslistum í kjördæmunum sex. 88 konur skipa fimm efstu sætin á framboðslistunum en 92 karlar. Ef hins vegar er litið á skipan þriggja efstu sæta hallar verulega á konur. Af þeim 126 frambjóðendum sem skipa 1. til 3. sætið á framboðslistunum 42 er aðeins þriðjungurinn konur eða 46, karlarnir eru 80.
Þess ber þó að geta að P-listi Lýðræðishreyfingarinnar raðar frambjóðendum eftir stafrófsröð en skipar ekki einstaklingum í ákveðin sæti, nema í leiðtogasæti á hverjum lista fyrir sig.