Miklar líkur eru taldar á að fleiri kjósendur en áður lýsi með einhverjum hætti óánægju sinni með stjórnmálaflokka og -menn í þingkosningunum á laugardaginn. Til þess hafa kjósendur ýmsar leiðir. Þá fyrstu að mæta einfaldlega ekki á kjörstað og neyta þar með ekki atkvæðisréttar síns. Í öðru lagi er hægt að skila auðum atkvæðaseðli eða ógilda hann á einhvern annan hátt og í þriðja lagi er hægt að strika yfir nöfn frambjóðenda á þeim lista sem viðkomandi kjósandi kýs, eða breyta röð frambjóðenda.
Kjósendur á kjörskrá eru að þessu sinni nærri 228 þúsund talsins. Hefur þeim fjölgað um 3% frá þingkosningunum í maí 2007. Þá var ríflega 221 þúsund manns á kjörskrá og á kjörstað mættu rétt rúmlega 185 þúsund, eða 83,6%. Er það lélegasta kjörsókn frá stofnun lýðveldisins. Fyrir tveimur árum var hlutfall auðra seðla 1,4% af greiddum atkvæðum og 1% árið 2003. Ógildir seðlar voru hvorum tveggja kosningum aðeins 0,2%.
Einar Mar Þórðarson stjórnmálafræðingur bendir á að í könnunum Gallup að undanförnu hafi um 12% aðspurðra sagst ætla að skila auðu á kjörstað. Það sé óvenjuhátt hlutfall miðað við síðustu kosningar og erfitt að ráða í hver raunin verði í kjörklefanum. Einar Mar telur engu að síður miklar líkur á að fleiri kjósendur muni skila auðu en áður. „Það eru ákveðin skilaboð fólgin í því að mæta á kjörstað og skila auðu, það eru sterkari skilaboð en að sitja heima og kjósa ekki,“ segir Einar og telur jafnframt að meira verði um útstrikanir og breytingu á röð frambjóðenda, einkum vegna mikillar umræðu um persónukjör.
Nokkrar breytingar voru gerðar á reglum um útstrikanir við samþykkt laga um alþingiskosningar árið 2000. Tekin var aftur upp svonefnd Borda-regla en hún var notuð í ýmsum útgáfum hér á landi til ársins 1987. Takmarkanir eru settar á beitingu reglunnar, m.a. að útstrikanir taka aðeins til sæta kjördæmakjörinna aðalmanna og varamanna þeirra. Þar sem kosnir eru t.d. tveir menn og því fjórum mönnum listans reiknuð atkvæði þurfa a.m.k. 20% kjósenda listans að strika út 2. mann listans til þess að fella hann úr aðalmannssæti í varamannssæti ef engar aðrar breytingar eru gerðar.
Ástráður Haraldsson, formaður landskjörstjórnar, segir að þeim tilmælum hafi nýlega verið beint til yfirkjörstjórna að við frásögn af atkvæðagreiðslu nk. laugardag yrðu auðir seðlar tilgreindir sérstaklega. Þetta hafi verið gert vegna umræðu um að líkur séu á mörgum auðum seðlum að þessu sinni.
Hann segir kosningalögin sem slík ekki segja til um flokkun atkvæða, að öðru leyti en því að auðir seðlar eru skilgreindir sem ógild atkvæði. Bendir Ástráður á að í skýrslum Hagstofu að loknum kosningum hafi verið gerður munur á auðum og ógildum atkvæðum.
Hvað segja lögin?
Í 100. grein laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, segir:
Atkvæði skal meta ógilt:
a. ef kjörseðill er auður
b. ef ekki verður séð við hvern lista er merkt eða ef ekki verður séð með vissu hvort það sem stendur á utankjörfundarseðli getur átt við nokkurn af listum sem í kjöri eru
c. ef merkt er við fleiri listabókstafi en einn eða tölumerkt nöfn á fleiri listum en einum eða skrifaðir fleiri en einn listabókstafur á utankjörfundarseðil
d. ef áletrun er á kjörseðli fram yfir það sem fyrir er mælt eða annarleg merki sem ætla má að sett séu af ásettu ráði til að gera seðilinn auðkennilegan
e. ef í umslagi með utankjörfundarseðli er annað eða meira en einn kjörseðill
f. ef kjörseðill er annar en kjörstjórn eða kjörstjóri hefur löglega afhent