Óska eftir upplýsingum stjórnmálaflokka vegna bílalána

mbl.is

Félag íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, hefur ritað forsvarsmönnum allra stjórnmálaflokka og –hreyfinga sem nú bjóða fram til alþingiskosninga bréf. Í því er m.a. spurt um hvort mótaðar hafi verið hugmyndir um viðbrögð við greiðsluerfiðleikum fólks vegna bílalána í erlendri mynt, til hvaða aðgerða sé fyrirhugað að grípa til og hvenær, til að leysa vanda þeirra sem eiga í erfiðleikum með það að standa í skilum  með afborganir af þessum lánum.

 Að undanförnu hefur fjöldi fólks sem komið er í greiðsluvanda með bílalán sín, leitað til FÍB. Fjölmargar fjölskyldur endurnýjuðu bíla sína á undangengnum þensluárunum, og oftar en ekki með með lánsfé sem þá var auðfengið hjá bönkum og fjármögnunarfyrirtækjum. Erlend myntkörfulán voru algengust og gjarnan tryggð með sérstöku veði í heimilum lántakenda og ábyrgðarmanna, að því er segir í tilkynningu frá FÍB.

„Í kjölfar gengishruns íslensku krónunnar hefur höfuðstóll þessara lána hækkað gríðarlega með samsvarandi áhrifum á afborganir. Bankarnir og fjármögnunarfyrirtækin hafa flest boðið upp á tímabundna greiðslufrystingu fyrir þá sem eru með lán sín í skilum. Það kann að reynast skammgóður vermir. Aðrir sem ekki njóta slíkrar frystingar þurfa hins vegar að róa þungan róður. Í mörgum tilfellum eru bifreiðalán að leggja fjárhag fjölskyldna að velli. Á sama tíma er nánast einvörðungu rætt um lausnir á vanda tengdum húsnæðislánunm. Rétt er að halda því til haga að því fer fjarri að FÍB sé að draga úr þeim vanda. Hins vegar telur félagið brýnt að lausnir verði einnig fundnar á vanda þeirra sem í góðri trú tóku lán í erlendri mynt til kaupa á fjölskyldubifreið. Þessir einstaklingar eru nú í bráðri hættu á að missa heimili sín vegna hækkandi bílalána.

Flest ef ekki öll stjórnmálasamtök sem bjóða nú fram til alþingiskosninga hafa lýst eindregnum vilja til að verja heimilin og fjölskyldurnar í landinu skipbroti í þeim efnahagslega ólgusjó sem nú gengur yfir. Óhjákvæmilegt er að það efnahagsástand sem nú ríkir á Íslandi komi við efnahag heimila og fjölskyldna í landinu. Félag íslenskra bifreiðaeigenda minnir á að hagsmunir heimila og fjölskyldna lúta ekki einungis að íbúðarhúsnæði heldur líka að því að eiga og reka fjölskyldubifreið.

Nú er stutt til kosninga og með hliðsjón af því fer félagið þess á leit við forystumenn flokkanna og –samtakanna að svara spurningum félagsins eins fljótt og kostur er og ekki síðar en á hádegi þann 23. apríl nk. Þann dag hyggst félagið kynna félagsmönnum sínum svörin.

Spurningarnar sem FÍB leggur fyrir forystumennina, flokka þeirra og samtök eru svohljóðandi:

Hvað ætlið þér og stjórnmálaflokkkur, -hreyfing þín að gera varðandi vanda þessara neytenda? Jafnframt; hvenær yrði gripið til þeirra aðgerða?

Hefur stjórnmálaflokkurinn, -hreyfingin beitt sér í þessum málum á síðustu mánuðum?

Hefur flokkurinn, -hreyfingin mótaðar hugmyndir um að tryggja hagsmuni neytenda sem eiga í greiðsluerfiðleikum vegna bílafjármögnunar?

Telur stjórnmálaflokkurinn, -hreyfingin að til greina komi að neytendum með myntkörfulán verði boðið upp á greiðslujöfnunarleið, líkt og sést hefur með húsnæðislán í erlendri mynt," að því er segir í bréfi FÍB.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert