Taka undir að Ríkisendurskoðun skoði fjármál flokkanna

Stjórnmálaleiðtogarar hafa tekið undir orð Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra og formanns Samfylkingairnnar, í Zetunni á mbl.is í gær, um að Ríkisendurskoðun fari yfir fjármál stjórnmálaflokkanna og skoði  sérstaklega tímabilið frá árinu 2000 til 2007. 

„Það mega ekki vera svona grunsemdir uppi um að það séu hagsmunatengsl og óeðlileg afskipti af fyrirtækjum. Það verður allt að vera uppi á borði. Og ég mun skoða það í fullri alvöru að það verði allt uppi á borðum og að Ríkisendurskoðun leggi hlutlaust mat á það,“ sagði Jóhanna í umræðuþættinum Zetan á mbl.is í gær.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, tók undir þessi orð Jóhönnu í viðtali við Zetuna. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, og Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, segjast vilja að Ríkisendurskoðun skoði fjármál stjórnmálaflokkanna. Allir segjast þeir „ekki hafa neitt að fela“. Mikilvægt sé að almenningur fái traust á stjórnmálaflokkum í landinu. „Við í Vinstri grænum erum stolt af því að hafa verið með opið bókhald alla tíð,“ segir Steingrímur.

Bjarni segir mikilvægt að flokkarnir nái þverpólitískri sátt um faglega umfjöllun um fjármál flokkanna fyrir gildistöku laganna árið 2007.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka