Forsvarsmenn hóps áhugafólks um endurreisn Íslands hafa sent frá sér yfirlýsingu en hópurinn birti umdeildar auglýsingar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu í vikunni. Undir yfirlýsinguna skrifa Benedikt Guðmundsson og Sigurður Hjaltested.
Auglýsingarnar hafa sætt harðri gagnrýni, m.a. vegna þess að ekki kom fram hverjir stóðu að samtökunum. Í yfirlýsingunni segir, að hvorki Morgunblaðið né Fréttablaðið hafi gert kröfu um að hópurinn tilgreindi sig með öðrum hætti en hann gerði.
Í yfirlýsingunni segja þeir Benedikt og Sigurður, að bæði Vinstri grænir og Samfylkingin hafi talað um skattahækkanir í aðdraganda kosninganna. Upplýsingarnar í auglýsingunni byggi á yfirlýsingum frá frambjóðendum vinstri flokkanna, áherslumálum þeirra og stefnuskrám. Athugasemdir vinstri manna við auglýsinguna séu markverðar fyrst og fremst vegna þess að þær sýni að þeir eru á flótta undan eigin stefnumörkun örfáum dögum fyrir kosningar.