Dregur saman með flokkunum

Heldur dregur saman með þeim þremur flokkum, sem njóta mest fylgis kjósenda þessa dagana ef marka má könnun, sem Capacent hefur gert fyrir Morgunblaðið og Ríkisútvarpið. Fylgi Samfylkingarinnar hefur heldur minnkað miðað við kannanir sem birtar voru í gær og morgun og fylgi Sjálfstæðisflokks eykst lítillega. 

Um er að ræða þriðju raðkönnun Capacent Gallup. Samkvæmt könnuninni mælist fylgi Samfylkingar nú 28,4% en var 31,7% í samskonar könnun, sem birt var í morgun og 30,5% í könnun sem birt var í gærmorgun.

Fylgi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs mælist 27,7% í könnuninni, sem birt var nú síðdegis. Í könnun, sem birt var í morgun mældist fylgi flokksins 27,5% og 25,9% í könnun í gær.

Fylgi Sjálfstæðisflokks mælist 23,7% í könnuninni nú en var 22,5% í könnuninni í morgun og 22,9% í könnuninni í gær.

Fylgi Framsóknarflokks mælist nú 12,7%, var 12,1% í morgun og 11,8% í gær.

Fylgi Borgarahreyfingarinnar mælist 6,2% í dag, 5% í morgun og 7% í gær.

Fylgi Frjálslynda flokksins mælist nú 1% og Lýðræðishreyfingarinnar 0,3%.

Niðurstöðurnar eru úr net- og símakönnun sem  Capacent Gallup gerði dagana 19. – 21. apríl. Úrtakið í netkönnuninni var tilviljunarúrtak úr viðhorfahópi Capacent Gallup en úrtakið í símakönnuninni  var tilviljunarúrtak úr þjóðskrá. Heildarúrtaksstærð var 2300 manns 18 ára og eldri. Svarhlutfall var 60,5%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert