Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, segir VG halda ró sinni og ekki kippa sér upp við yfirlýsingar einstakra frambjóðenda Samfylkingarinnar um ESB-aðild í kosningabaráttunni.
Steingrímur sagði að sú afstaða VG væri alveg óbreytt að þeir hefðu fullan hug á að halda núverandi stjórnarsamstarfi áfram eftir kosningar ef þeir fengju til þess umboð í kosningunum. Forystumenn setjist niður eftir kosningar þar sem flokkarnir leggja stefnu sína á borðið án þess að setja úrslitaskilyrði.
Spurður um þau ummæli Björgvins G. Sigurðssonar að samstarf komi ekki til álita nema ESB-málið verði leyst, sagði Steingrímur að sér væri ekki kunnugt um að einstakir þingmenn hefðu fengið allsherjarumboð til að ákveða um hvað stjórnarsamstarf eigi að snúast.