Ásmundur Helgason, ritari landskjörstjórnar, segir að tvær fyrirspurnir hafi borist þar sem frambjóðandi hafi ekki kannast við að hafa samþykkt að vera í framboði. Í báðum tilvikum sé um lista Lýðræðishreyfingarinnar að ræða. Ástþór Magnússon, talsmaður hreyfingarinnar, vísar þessu á bug.
„Þetta er útilokað. Þetta virkar þannig að þegar fólk skráir sig í svona framboð þá þarf að skrifa á sérstakt blað til að gera það. Og það gerir það með eigin hendi,“ segir Ástþór í samtali við mbl.is.
Ásmundur Helgason segir að í öðru tilvikanna hafi frambjóðandi talið sig aðeins hafa skrifað undir meðmælendalista en í hinu tilvikinu telji frambjóðandi að hann hafi ekki skrifað nafn sitt undir neitt hjá hreyfingunni. Önnur fyrirspurnin barst í gær og hin í dag.
Spurður hvað þessir frambjóðendur geti gert, vilji þeir fá nafn sitt út af listunum, segir Ásmundur að þeir geti aðeins kært málið til lögreglu, telji þeir að nöfn sín hafi verið fölsuð. Í kosningalögum sé engin heimild til að krefjast þess að nafn sé tekið út af listum eftir að þeir eru komnir fram og framboðsfrestur liðinn.
„Það er búið að ganga frá framboðslistunum og úrskurða þá gilda, eins og þeir bárust yfirkjörstjórnum. Landskjörstjórn fær listana til meðhöndlunar en kannar ekki það sem yfirkjörstjórnirnar hafa lagt blessun sína yfir. Síðan er auglýsing unnin upp úr þessu og birt og afar erfitt að hrófla við því,“ segir Ásmundur.
„Nei, það hefur enginn haft samband við mig,“ segir Ástþór spurður um
það hvort einhverjir hafi gert athugasemdir vegna málsins. „Það fer
ekkert á milli mála að þeir sem eru í framboði hafa undirritað beiðni um það að vera í framboði,“ segir Ástþór að lokum.