Yfir 10% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins í alþingiskosningunum 2007 segjast ætla að skila auðu í kosningunum nú og yfir 7% eru enn óákveðin, samkvæmt skoðanakönnun sem Capacent Gallup gerði 18. til 20. apríl og birti í gær. Mun meiri ánægja er meðal kjósenda Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs því innan við 1% kjósenda þeirra frá síðustu kosningum segist ætla að skila auðu og enginn er í hópi óákveðinna.
Í könnuninni kemur fram að 8,4% þeirra sem spurðir voru segjast ætla að skila auðu. Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir að þetta sé miklu hærra hlutfall en venjulega. Þannig hafi auð og ógild atkvæði í kosningum undanfarin fjörutíu ár verið innan við 2%, langmest auðir seðlar.
Ólafur segir að það sé mikið þegar yfir 10% kjósenda D-listans frá 2007 segjast ætla að skila auðu. „Það segir okkur væntanlega það að hópur sjálfstæðismanna er svo óánægður með flokkinn að hann segist annaðhvort ætla að sitja heima eða skila auðu,“ segir Ólafur og bætir síðar við að óánægjan gangi ekki svo langt að kjósendurnir séu tilbúnir að kjósa annan flokk. Mun lægra hlutfall fyrri kjósenda B-listans (5,9%) og S-listans (2,5%) segjast ætla að skila auðu og aðeins 0,8% kjósenda VG. Ólafur segir algengara að fólk láti óánægju sína í ljós með því að kjósa ekki en nefnir þó dæmið úr forsetakosningunum 2004 þegar yfir 20% þeirra sem kusu skiluðu auðu. Hann segir að ef þeir sem segjast ætla að skila auðu skiluðu sér til sinna gömlu flokka myndi Sjálfstæðisflokkurinn njóta þess meira en aðrir flokkar. Það myndi þó aðeins muna örfáum prósentum á fylgi flokksins.
Tiltölulega fáir eru nú óákveðnir, samkvæmt könnuninni, eða 4,2%. Langhæsta hlutfallið er hjá fyrri kjósendum D-listans. Ólafur segir að þótt flestir nefni flokk í skoðanakönnunum sýni rannsóknir að mun stærri hópur ákveði sig ekki endanlega fyrr en á kjördag, eða 10-20%.