Segja fyrningu aðför að 32 þúsund fjölskyldum

mbl.is/ÞÖK

Stjórn Félags ungs fólks í sjávarútvegi hefur sent frá sér ályktun þar sem fram kemur að  fyrning aflaheimilda sé aðför að 32.000 fjölskyldum.


„Vinstriflokkar í framboði til Alþingis hafa það á stefnuskrám sínum að gera aflaheimildir sjávarútvegsfyrirtækja upptækar undir yfirskrift fyrningarleiðar. Slík aðgerð kollvarpar því trausta og hagkvæma skipulagi sem ríkt hefur í sjávarútvegi um árabil og setur afkomu tugþúsunda einstaklinga um land allt í mikla óvissu.

90% aflaheimilda eru í höndum fyrirtækja sem keypt hafa heimildir sínar á markaði og fengu ekki aflaheimildum úthlutað við upphaf kerfisins 1984. Að gera þær heimildir upptækar með valdi er óréttlæti í sinni tærustu mynd og ábyrgðarhlutur af stjórnmálamönnum að leggja slíkt til. Óréttlátt er að refsa þeim sem keypt hafa aflaheimildir og byggt upp sterkasta sjávarútveg heims fyrir úthlutun stjórnmálamanna árið 1984.
Sjávarútvegur er burðarstólpi í íslensku atvinnulífi og hefur síðastliðin 10 ár skapað um 60% allra útflutningstekna landsins.

Stjórnmálamenn eru hvattir til þess að víkja snarlega frá hugmyndum um þjóðnýtingu aflaheimilda taka þess í stað stöðu með þeim heiðarlegu og dugmiklu vinnandi fólki í sjávarútvegi.

Slá þarf skjaldborg um þær 32.000 fjölskyldur sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi," að því er segir í ályktuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert