Sjálfstæðisflokkur tapar miklu

Sjálfstæðisflokkur tapar þremur kjördæmakjörnum þingmönnum í Reykjavík suður ef marka má könnun, sem Capacent Gallup hefur gert fyrir Morgunblaðið og Ríkisútvarpið um fylgi flokka í kjördæminu. Flokkurinn fékk 5 þingmenn síðast í kjördæminu en fær 2 nú samkvæmt könnuninni.

Fylgi Samfylkingarinnar mælist 34,7% í Reykjavík suður samkvæmt könnuninni sem gefur flokknum 4 þingmenn en hann fékk 3 þingmenn í kosningunum 2007. Vinstrihreyfingin-grænt framboð fær 27,6% fylgi í könnuninni og þrjá þingmenn, fékk einn síðast, og fylgi Sjálfstæðisflokks er nú 22,6%.

Framsóknarflokkurinn mælist með 6,3% fylgi, Borgarahreyfingin 5,2%, Lýðræðishreyfingin 3% og Frjálslyndi flokkurinn 0,5%. Ekkert þessara framboða kæmi manni á þing.

Síðasti þingmaðurinn inn, samkvæmt könnuninni, er 4. maður Samfylkingairnnar en næstur inn væri 3. maður Sjálfstæðisflokks.

58,1% þeirra, sem taka afstöðu í könnuninni, styðja núverandi ríkisstjórnin en 41,9% eru henni andvíg.  

Niðurstöðurnar eru úr net- og símakönnun sem Capacent Gallup gerði dagana 19. til 21. apríl 2009. Úrtakið í netkönnuninni var tilviljunarúrtak úr viðhorfahópi Capacent Gallup en úrtakið í símakönnuninni var tilviljunarúrtak úr þjóðskrá. Heildarúrtaksstærð var 800 manns 18 ára og eldri. Svarhlutfall var 61,5%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert