Styrkirnir vegna tveggja prófkjara

Steinunn Valdís Óskarsdóttir.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir. mbl.is/frikki

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segist hafa fengið styrki frá Baugi Group og FL Group vegna tveggja prófkjara, sem hún tók þátt í árið 2006, samtals 4 milljónir króna.  Hún segir, að flestir eða allir stjórnmálamenn, sem hafi tekið þátt í prófkjörum gegnum tíðina, hafi fengið styrki frá fyrirtækjum.

Steinunn Valdís tók fyrst þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar vorið 2006. Hún segist þá hafa fengið 1 milljón króna í styrk, bæði frá Baugi Group og FL Group.

Hún tók síðan aftur undir lok ársins þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík, nú vegna alþingiskosninganna árið eftir og fékk þá á ný 1 milljón frá hvoru fyrirtæki í styrk.

Þegar Steinunn Valdís var spurð hvort það væri eðlilegt að þiggja svona háa styrki frá fyrirtækjum ítrekaði hún að um hefði verið að ræða tvö prófkjör. Þegar hún var spurð hvort þessar upplýsingar myndu ekki hafa áhrif á stöðu hennar í kosningabaráttunni og sem alþingismanns sagði hún, að allir stjórnmálamenn, sem tekið hefðu þátt í prófkjörum, hefðu fengið styrki frá fyrirtækjum. Stjórnmálaflokkar hefðu kallað þetta yfir sig með því að halda opin prófkjör, sem væru afar dýr.

Steinunn Valdís vildi ekki upplýsa að svo stöddu, hver kostnaður hennar við prófkjörin hefði verið en sagðist hafa  skilað öllum upplýsingum um þau til embættis skattstjórans í Reykjavík. Ekki myndi  standa á henni ef Samfylkingin ákveði, að frambjóðendur á vegum flokksins skuli birta upplýsingar um prófkjörskostnað. Hún sagðist hafa greitt hluta af kostnaðnum úr eigin vasa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert