Á laugardaginn ganga Íslendingar til sögulegra þingkosninga sem sumir hafa kallað þær mikilvægustu frá upphafi. Rúm 4% kjósenda eru nýkomin með kosningarétt, ungmenni sem fá nú að kjósa í fyrsta skipti og það við heldur óvenjulegar kringumstæður.
Blaðamaður mælti sér mót við nokkra nemendur í Menntaskólanum í Sund til að hlera hvernig kosningarnar leggjast í þá. „Mér finnst ég svolítið vera að átta mig á því að þetta sé stærra en ég hélt, að geta gert þetta. Maður er bara svolítið stoltur að geta haft áhrif,“ segir Birta Sigmundsdóttir.
„Ég held að það sé mikilvægt að kynna sér þetta vel, þó það séu kannski ekki margir á okkar aldri sem pæla í því,“ segir samnemandi hennar, Elva Dögg Baldvinsdóttir. Menntskælingarnir eru allir harðir á því að nota nýfenginn kosningarétt sinn á laugardag, en þau eru þó ekki viss um að það sama eigi við um alla.
Hinsvegar megi gera meira til að ná til yngstu kjósendanna. „Það veit örugglega ekki helmingurinn af krökkum á okkar aldri hvenær verður kosið. Það er eins og sumir haldi að þetta snerti okkur ekki af því við erum bara í menntaskóla,“ segir Elva og Birta bætir við: „Í bekknum mínum spurði kennarinn hverjir ætluðu að kjósa, og bara fjórir réttu upp hönd. Það er eins og margir fatti ekki að þetta er á laugardaginn.“
Þau segjast ekki finna fyrir því að ungt fólk eigi sér málsvara í sérstökum frambjóðendum eða flokkum. Samfylkingin og VG hafi helst gert tilraun til að ná til ungra kjósenda í auglýsingum, en Sjálfstæðisflokkurinn minnst að þeirra mati.
En eiga þau einhverja skýringu á því hversu áberandi stuðningur við VG er meðal ungs fólks í skoðanakönnunum? „Ég held að það þyki svolítið hipp og kúl, að það sé í tísku að vera vinstrisinnaður,“ ályktar Birta. Mótmælin eru líka sennileg skýring að mati Elvu. „Það var mjög mikið gert úr þeim og ég held það hafi verið mikið af ungu fólki sem hafði áhuga og það situr svolítið í þeim. En mér finnst mjög margt vera búið að breytast síðan og stefnumál allra flokkanna í graut.“