Kolbrúnu Halldórsdóttir, umhverfisráðherra, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna fréttar á Stöð 2 í kvöld þar sem hún sagði, að olíuvinnsla samrýmist hvorki stefnu um sjálfbæra nýtingu orkulinda né skuldbindingum Íslands á alþjóðavettvangi. Tekur Kolbrún fram, að þingflokkur VG hafi ekki lagst gegn olíuleit á Drekasvæðinu.
Yfirlýsing Kolbrúnar er eftirfarandi:
Vegna fréttar Stöðvar 2 í kvöld um olíuleit á Drekasvæðinu vil ég koma eftirfarandi á framfæri.
Þegar frumvarp um breytingar á lögum um olíuleit á Drekasvæðinu var samþykkt á Alþingi 20. desember 2008 sátu þingmenn VG hjá vegna vanreifunar málsins. Fyrir þvi voru nokkrar ástæður, m.a. var afgreiðsla málsins flaustursleg og fékk það sáralitla umfjöllun í umhverfisnefnd þingsins, þrátt fyrir að stærstur hluti þess hafi heyrt undir málasvið nefndarinnar. Skipulagsþáttur málsins var á endanum tekinn út úr frumvarpinu vegna slælegs undirbúnings, enda hafði Skipulagsstofnun ekki verið höfð með í ráðum við samningu þess. Aðkomu sveitarfélaga var ábótavant og mikilvægt var að huga betur að mengunarþætti málsins. Af þessum orsökum sátu þingmenn VG hjá við afgreiðslu frumvarpsins.
Sem umhverfisráðherra hlýt ég í afstöðu minni að taka mið af skuldbindingum Íslands á alþjóðavettvangi í umhverfismálum, sem byggja á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Við sjálfbæra atvinnustefnu ber að horfa heildstætt á áhrif framkvæmda á samfélag, umhverfi og efnahag. Sé það vilji Íslendinga að hefja olíuiðnað í lögsögu Íslands hefði verið eðlilegt að gefa öllum hlutaðeigandi aðilum tækifæri til að koma að málinu á undirbúningsstigi og skoða það i samhengi við heildarstefnumótun í atvinnu- og orkumálum. Það var í ljósi þessa sem ég lýsti efasemdum með fyrirhugaða úthlutun leyfa til olíuleitar á Drekasvæðinu.
Í tilefni framsetningar fréttar Stöðvar 2 i kvöld um málið skal tekið fram að þingflokkur VG hefur ekki lagst gegn olíuleit á Drekasvæðinu.