Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, segir mörg fyrirtæki hafa stutt sig vegna prófkjörs fyrir kosningarnar 2007. Helgi segir kostnað við prófkjörið hafa verið um fimm milljónir króna. „Ég hef almennt sagt að mest áberandi í stuðningi við mitt framboð hafi verið bankar, fjármálafyrirtæki, eignarhaldsfélög og fjárfestar í slíkum félögum. Á þeim tíma var trúnaður um einstakar styrkveitingar,“ sagði Helgi.
Helgi Hjörvar neitaði að upplýsa hvort Baugur eða FL Group hefði styrkt framboð hans. „Ég kýs að gera grein fyrir þessu með þessum hætti,“ sagði Helgi og vitnaði til þess sem hann hefði sagt um það hvers konar fyrirtæki hefðu verið stærstu styrkveitendur hans.
Helgi segir Samfylkinguna í Reykjavík hafa samþykkt að kostnaður við prófkjör vegna kosninganna sem fara fram nk. laugardag skyldi ekki fara yfir eina milljón. Hann hafi ekki þurft að afla styrkja vegna þeirrar baráttu.