Lokaorð formanna til kjósenda

Frá formannafundi RÚV í kvöld
Frá formannafundi RÚV í kvöld mbl.is/Ómar

Formenn og talsmenn stjórnmálahreyfinganna sjö sem bjóða fram til Alþingis, mættust í sjónvarpssal í kvöld í síðustu kappræðum fyrir kosningar. Þar fengu þeir síðasta tækifærið til að ávarpa kjósendur áður en kjördagur rennur upp. mbl.is birtir lokaávörp fulltrúa allra flokkanna.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Framsóknarflokki

„Framsóknarflokkurinn fór í gegnum gríðarlega mikla endurnýjun í janúar, svaraði kallinu um endurnýjun í stjórnmálum og hefur innleitt ný vinnubrögð og er að því, til að mynda í efnahagsmálum. Leitar yfirleitt ráða hjá þeim sem best þekkja til á hverju sviði, höfum haft samband við fólk í atvinnulífinu  og færustu hagfræðinga við að móta tillögur um það hvernig eigi að bregðast við ástandinu eins og það er núna til þess að koma í veg fyrir áframhaldandi hrun. Út á það ganga allar tillögur okkar og ég hvet menn til þess að kynna sér þær. Aðalatriðið er kannski það að það sem við höfum séð núna, síðustu daga, er að eina leiðin út úr þessum vanda er að gangast við því að Ísland er búið að taka meira að láni en það stendur undir og því þarf að koma til móts við skuldarana með því að gefa eftir.“

Bjarni Benediktsson, Sjálfstæðisflokki

„Ég vil fyrst og fremst hvetja kjósendur til þess að nýta atkvæði sitt á morgun til þess að hafa áhrif á framtíðina. Ég tel að við Íslendingar eigum að vera stolt, við höfum öll tækifæri í hendi okkar, við erum meðal þeirra þjóða í heiminum sem er með mesta þjóðarframleiðslu á mann. Við verðum hins vegar að nýta auðlindirnar, grípa þau tækifæri sem gefast. Þess vegna hef ég áhyggjur af því að ríkisstjórnarflokkarnir sem nú sitja, eru ósammála í mikilvægum grundvallaratriðum. Við kjósendur segi ég, spyrjið ykkur að því, hvaða flokkur er líklegastur til þess að skapa  ný störf, stuðla að atvinnuuppbyggingu. Okkar leið er leið bjartsýni og vonar. Við ætlum að trúa á kraftinn í fólkinu í þessu landi og ég hvet fólk til þess að kjósa þá leið.“

Guðjón Arnar Kristjánsson, Frjálslynda flokknum

„Það er alveg ljóst að ef við viljum vernda hér tryggingakerfið og heilbrigðiskerfið, þá þurfum við að ná nýjum tekjum. Það höfum við lagt til í Frjálslynda flokknum. Við treystum því að landsmenn sjái skynsemina í því og rökin fyrir því, að halda frjálslyndum þingmönnum inni á þingi Íslendinga, til að tala þar af skynsemi um málefni framtíðarinnar.

Þór Saari, Borgarahreyfingunni

„Við verðum að muna eftir því hvers vegna er verið að kjósa á morgun. Það er verið að kjósa á morgun af því að hér varð algjört efnahagshrun. Stjórnvöld á Íslandi brugðust almenningi algerlega og sveipuðu efnahagsmálin hér í leyndarhjúp, þannig að heimilin lentu á vonarvöl. Við megum ekki gleyma því. Þessi sömu stjórnvöld þau sitja hér í kvöld, allt í kringum mig og bjóða almenningi upp á það að láta kjósa sig aftur á morgun. Við vitum hvað gerðist, hvernig það gerðist og við vitum hverjir bera ábyrgðina. Við megum ekki gleyma því heldur. Það er algjört grundvallaratriði. Ástæðan fyrir því að hlutirnir enduðu eins og þeir enduðu er þó kannski fyrst og fremst sú að við hættum að skipta okkur sjálf af stjórnmálum. Við gleymdum því, við sváfum á verðinum. Við megum ekki gera það. Á morgun þegar við göngum inn í kjörklefann, þá skulum við ekki spyrja okkur þessarar spurningar, aftur og einu sinni, hvað gerðist og hvernig gerðist það. Við vitum hvað það var. Við skulum spyrja okkur þeirrar spurningar, hvað er það sem ég get gert og hvað er það sem mér ber að gera á morgun.“

Ástþór Magnússon, Lýðræðishreyfingunni

„Lýðræðishreyfingin veitir þér frelsi. Á morgun ertu frjáls. Á morgun getur þú kosið þig undan oki gömlu, ónýtu flokkanna. Þú getur kosið þig undan kjaftvaskinu á Alþingi og látið verkin fara að tala. Þú getur sjálfur tekið þátt í atkvæðagreiðslum á Alþingi, í umræðum. Vegna þess að við ætlum að koma á beinu lýðræði, þar sem þú kjósandi átt þitt atkvæði. Þetta er mikilvægasta aðhaldið sem þú getur veitt þessu fólki hér sem mun hugsanlega starfa á þinginu. Þetta er það sem mun færa Ísland út úr kreppunni.“

Jóhanna Sigurðardóttir, Samfylkingunni

„Þýðingarmestu kosningar í sögu Lýðveldisins eru á morgun. Við höfum það sögulega tækifæri að félagshyggju- og jafnaðarmannaflokkar fái meirihluta, þessir tveir flokkar, til þess að stjórna hér landinu. Þessir flokkar hafa mest haft fjörutíu og fimm prósenta fylgi 1978. Nú er þetta sögulega tækifæri. Og hvað gerist við þær breytingar? Við setjum til hliðar nýfrjálshyggjuna og það sem hún hefur lagt grunn að, því sem við erum núna að ganga í gegnum. Við munum geta breytt hér tekjuskiptingunni, sem hefur verið mjög óeðlileg á undanförnum árum, þar sem hefur orðið risavaxið bil milli fátækra og ríkra í þjóðfélaginu. Og ég segi, það skiptir máli hverjir stjórna. Ef Samfylkingin  veðrur leidd til öndvegis í þessum kosningum, þá mun ríkja hér réttlæti og jafnrétti á næstu árum.“

Steingrímur J. Sigfússon, Vinstri hreyfingunni grænu framboði

„Ég vil byrja á því að þakka þjóðinni fyrir kosningabaráttuna fyrir okkar hönd og mína. Ég hef átt marga ánægjulega fundi um allt land og þeir hafa aukið mér bjartsýni. Ég finn það að þjóðin er þrátt fyrir allt, tilbúinn til að berjast og vill það og við getum sameinað kraftana, bæði ungir sem aldnir. Valið er skýrt á morgun. Við getum kosið það sem var, það sem hrundi í október, hugmyndafræði nýfrjálshyggju og græðgi eða við getum kosið manneskjulegra og réttlátara samfélag í norrænum anda. Og einu get ég lofað ykkur góðir kjósendur, Þið ykkar sem kjósið Vinstri hreyfinguna grænt framboð á morgun, þið kjósið heiðarlegan og óspilltan flokk.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert