Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra segir að þær upplýsingar sem Sigmundur Davíð hafi komið fram með séu á misskilningi byggðar. „Ég hef ekki séð þetta tiltekna minnisblað og veit því ekki hvort misskilningurinn er höfundarins eða hvort hann er tilkominn annars staðar frá. Það er hins vegar rétt að það er verið að ganga frá mati á eignum sem fóru á milli gömlu og nýju bankanna, og skuldbindingunum líka. En það hefur ekkert komið fram sem segir að tjónið sé þúsundum milljarða meira en menn sáu fram á síðastliðið haust.“
Í kvöldfréttum Sjónvarps í gær og á vef sínum á Eyjunni segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, stöðuna vera mun verri heldur en hingað til hafi verið haldið fram hvað varðar bankana og spáir öðru hruni.
Gylfi segir vinnu við mat á eignum vera á lokastigum. „Það verður gengið frá endanlegu uppgjöri á næstu vikum. Síðan eiga kröfuhafar eftir að fá að skoða gögn og koma sínum sjónarmiðum á framfæri, og síðan á eftir að semja um hugsanlega aðkomu kröfuhafanna að eignarhaldi á nýju bönkunum. En ég hef ekki séð nein skjöl eða tölur sem gera ráð fyrir því að tjónið sé miklu meira en reiknað var með í haust,“ sagði Gylfi.
Hann segir alveg ljóst að lánasöfn gömlu bankanna hafi verið „afleit“, eins og matið hafi leitt í ljós, en ekki sé endanlega ljóst hvernig útlánasöfnin verði í nýju bönkunum þegar efnahagsreikningar hafa verið formlega stofnaðir og þeim hefur verið lagt til eigið fé frá ríkinu. Þá sé fyrirsjáanlegt að ríkið þurfi ekki að leggja bönkunum til eins mikið eigið fé og reiknað var með í upphafi, sem var 385 milljarðar króna. „Ef til kemur aðkoma kröfuhafa að eign í bönkunum, sem eru nú töluverðar líkur á, þá myndi eiginfjárframlagið minnka. Þannig að þessi mál hafa ekki verið til lykta leidd enn og því ótímabært að tjá sig um hvernig lokaniðurstaðan verður.“