Sögulegar kosningar

Einar Mar Þórðarson stjórnmálafræðingur telur að látið verði reyna á aðildarviðræður við Evrópusambandið áður en árið er liðið í næstu ríkisstjórn sem verði að öllum líkindum áfram skipuð Samfylkingu og VG. Niðurstaðan verði síðan lögð í dóm þjóðarinnar. Þetta sé núningsatriði en VG hafi gefið til kynna að þjóðin eigi að fá að ákveða þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu.  

Kannanir benda til að Sjálfstæðisflokkurinn nái sögulegri lægð, en hann hefur hingað til minnst fengið 27 prósent í kosningum. Vinstri flokkarnir ná sögulegum hæðum samkvæmt könnunum og geta í fyrsta sinn í sögunni myndað meirihluta án aðkomu annars stjórnmálaflokks. Þeir hafa mest fengið 45 prósent í kosningunum 1978.

Einar Mar segir að þótt það sé vinstri sveifla bendi ennfremur margt til þess að kjósendur séu einfaldlega að refsa Sjálfstæðisflokknum. Hann hafi lent í ólgusjó vegna skandala en þar beri hæst styrkjamálið, orka flokksforystunnar hafi farið í að svara fyrir það og hún hafi því haft minna svigrúm til að kynna áherslumál sín fyrir kosningarnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka