Ástþór illur út í RÚV

Ástþór Magnússon, talsmaður Lýðræðishreyfingarinnar, kaus í Ölduselsskóla í morgun.
Ástþór Magnússon, talsmaður Lýðræðishreyfingarinnar, kaus í Ölduselsskóla í morgun. mbl.is/Golli

„Lýðræðishreyfingin lætur ekki bjóða sér að mæta aftur í sjónvarpsumræður sem rammaðar eru inn af vitringum RÚV sem fundnir eru m.a. úr prófkjörum Sjálfstæðisflokksins,“ segir Ástþór Magnússon, talsmaður Lýðræðishreyfingarinnar í yfirlýsingu.

Hann er illur yfir umræðum leiðtoga flokkanna í RÚV í gærkvöld og segir útilokað að mæta aftur hjá RÚV við þessar kosningar. Venja er að leiðtogar allra flokka séu í sjónvarpssal þegar fyrstu tölur eru birtar að kvöldi kjördags.

Í yfirlýsingu Ástþórs, sem ber yfirskriftina, „RÚV rammar inn kosningarnar“ segir meðal annars að áróðurinn sem borinn hafi verið fyrir þjóðina í gærkvöld, undir merkjum stjórnmálafræði sé slík hneisa fyrir lýðræðislega umræðu að útilokað sé að mæta aftur hjá RÚV við þessar kosningar.

Ástþór segir að undanfarna mánuði hafi Lýðræðishreyfingunni verið úthýst úr Silfri Egils meðan aðrir hafi fengið óheftan og endurtekinn aðgang að kynna sín stefnumál. Egill Helgason hafi síðan enn og aftur misnotaði aðstöðu sína í leiðtogaþætti RÚV kvöldið fyrir kjördag til að draga taum einstakra framboða.

Í fyrsta sinn í sögu Íslenska lýðveldisins sé þjóðinni boðið beint lýðræði. Lýðræðishreyfingin hafi brotið blað í Íslandssögunni með slíku framboði en "vitringar" Egils Helgasonar hafi ekki séð neitt nýtt á boðstólum og talað um skemmtanagildi þáttarins.

Ástþór segir þjóðinni ekki skemmt yfir þeim hörmungum sem leidd hafi verið yfir hana. Efnahagsvandinn verði ekki leystur með því að skila auðu á kjörstað. Ástþór segir að öflugustu mótmælin sem kjósendur geti sýnt gömlu flokkunum sé að kjósa Lýðræðishreyfinguna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka