Fartölvur og spjaldskrár bannaðar

Yfirkjörstjórn sveitarfélagsins Árborgar hefur úrskurðað að bannað sé að nota fartölvur eða spjaldskrár inni í kjördeildum.

Kristinn M. Bárðarson, annar tveggja umboðsmanna S-listans í Suðurkjördæmi, óskaði í gær eftir forúrskurði yfirkjörstjórnar sveitarfélagsins Árborgar, þess efnis hvort fulltrúum listanna væri heimilt að nota spjaldskrár eða fartölvur inni í kjördeildum. Í morgun barst Kristni svar sem segir að notkun fartölva sé óheimil og ekki megi flytja nein gögn úr kjördeildum nema að fengnu samþykki yfirkjörstjórnar.

Kristinn segist í samtali við sunnlending.is hafa óskað eftir úrskurðinum af gefnu tilefni.

„Í síðustu kosningum til Alþingis og sveitarstjórnar voru framsóknarmenn og sjálfstæðismenn á Selfossi ýmist með spjaldskrár eða fartölvur inni í kjördeildum. Sem umboðsmaður S-lista lagði ég fram kæru vegna þessa en í það skiptið var úrskurðurinn á þá leið að þetta væri heimilt. Nú hefur kjörstjórn túlkað kosningalögin með öðrum hætti og því er þetta óheimilt í þessum kosningum,“ segir Kristinn í samtali við sunnlending.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert