Kjörsókn meiri en 2007 en gengur hægt á Akureyri

Langar raðir hafa myndast á kjörstað á Akureyri og hefur …
Langar raðir hafa myndast á kjörstað á Akureyri og hefur fólk þurft að bíða allt upp í klukkutíma eftir að kjósa. Mbl/Skapti

Kjörsókn nú virðist vera meiri en í alþingiskosningunum 2007 og hefur farið vel fram það sem af er degi. Einungis á Akureyri  höfðu færri greitt atkvæði nú en á sama tíma 2007 og er ástæða þess að kosning þar gengur hægt.

Á Akureyri höfðu 4.288 kosið klukkan 15.20 og er það 34% sem er á kjörskrá. Sú tala er tveimur prósentustigum lægri en á sama tíma 2007. Helgi Teitur Helgason, sem hefur umsjón með kosningunum á Akureyri, segir ástæðuna þá að kosningar gangi mjög hægt, en verið er að kjósa í fyrsta skipti í Verkmenntaskólanum á Akureyri. 

„Það eru biðraðir hérna á göngunum, í raun og veru örtröð því að margir eru komnir til að kjósa,“ segir Helgi Teitur. „Hjá okkur er þetta að einhverju leiti vanmat á getu húsnæðisins til að anna þessu.“ Enginn leiðindi hafi hins vegar komið upp og um þúsund manns kjósi nú á klukkustund á Akureyri.

Á Egilsstöðum höfðu 890 manns kosið rúmlega þrjú í dag og er það 36,7% kjósenda á kjörskrá og segja menn þar kjörsókn meiri en síðast.

Í Norðvesturkjördæmi var tilfinning manna að kjörsókn væri heldur meiri en 2007 og höfðu 6.344 kjósenda kosið kl. 15 eða 30% og er sú tala án utankjörfundaratkvæða.

Kjörsókn í Reykjavík norður var 35,46% klukkan 15 og þá höfðu 15.524 manns kosið. Í síðustu kosningum mældist þátttaka á sama tíma 33,18%. Í Reykjavík suður höfðu 16.054 kosið klukkan 15 eða 36,7%, árið 2007 var kjörsókn 34,75%.

Í Suðvesturkjördæmi höfðu 21.09 manns kosið klukkan 15 eða 36,2% kjósenda kjördæmisins. Árið 2007 höfðu 18.371 kosið á sama tíma eða 33,7% og árið 2003 höfðu 18.141 kosið eða 33,2% 

Í Suðurkjördæmi höfðu 11.710 manns kosið klukkan 15 eða 36% kjósenda. Árið 2007 höfðu 32,23 % greitt atkvæði á sama tíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka