27 nýir þingmenn

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, einn nýrra þingmanna, ræðir við Árna Þór …
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, einn nýrra þingmanna, ræðir við Árna Þór Sigurðsson á kosningavöku VG í nótt. mbl.is/Kristinn

Tuttugu og sjö nýir þingmenn setjast á Alþingi eftir alþingiskosningarnar í gær. Þetta varð ljóst þegar síðustu tölur bárust loks úr Norðlausturkjördæmi á tíunda tímanum í morgun. Af 63 þingmönnum eru 27 konur eða tæplega  43%. Níu þingmenn, sem sóttust eftir endurkjöri og voru ofarlega á framboðslistum, náðu ekki endurkjöri.

Samfylkingin er stærsti stjórnmálaflokkurinn eftir kosningarnar, fékk 29,8% atkvæða og 20 þingmenn, bætti við sig 2. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 23,7% atkvæða og 16 þingmenn, tapaði 9 og hefur fylgi flokksins aldrei verið jafn lítið. Vinstrihreyfingin -grænt framboð fékk 21,7% atkvæða og 14 þingmenn, bætti við sig fimm. Framsóknarflokkurinn fékk 14,8% atkvæða og 9 þingmenn, bætti við sig 3. Þá varð til nýr þingflokkur, Borgarahreyfingin, sem fékk 7,2% atkvæða og 4 þingmenn.

Frjálslyndi flokkurinn fékk 2,2% og engan mann en fékk 4 þingmenn kjörna árið 2007. Þá fékk Lýðræðishreyfingin 0,6% atkvæða.

Margir skiluðu auðu: 6226 eða 3,2% allra sem komu á kjörstað.

Fram hefur komið að mikið var um útstrikanir víða, einkum þó hjá Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu í Reykjavík og í Suðurkjördæmi. Ekki er ljóst hvort þessar útstrikanir hafa áhrif á röð frambjóðenda á listum.

Talsverðar sviptingar urðu á því í nótt og morgun hverjir væru líklegir þingmenn. Þær síðustu urðu þegar lokatölurnar voru birtar í Suðausturkjördæmi í morgun en þá var ljóst að Sjálfstæðisflokkur hafði unnið mann af Framsóknarflokki.

Við það varð til hringekja, sem leiddi til þess að Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, missti þingsæti í Suðvesturkjördæmi, sem hann hafði haft hendur á síðari hluta nætur, til Jóns Gunnarssonar.  Þá féll einnig Huld Aðalbjarnardóttir, Framsóknarflokki, af lista yfir þingmenn Norðausturkjördæmis en í stað hennar kom Jónína Rós Guðmundsdóttir, Samfylkingu.

Vinstrihreyfingin-grænt framboð:
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Suðvesturkjördæmi, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Norðvesturkjördæmi, Björn Valur Gíslason, Norðausturkjördæmi,  Svandís Svavarsdóttir, Reykjavík suður,  Lilja Mósesdóttir, Reykjavík suður, Ásmundur Einar Daðason, Norðvesturkjördæmi.

Sjálfstæðisflokkur:
Ásbjörn Óttarsson, Norðvesturkjördæmi, Unnur Brá Konráðsdóttir, Suðurkjördæmi, Tryggvi Þór Herbertsson, Norðausturkjördæmi.

Framsóknarflokkur:
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Reykjavík norður, Gunnar Bragi Sveinsson, Norðvesturkjördæmi, Guðmundur Steingrímsson, Norðvesturkjördæmi, Sigurður Ingi Jóhannsson, Suðurkjördæmi, Vigdís Hauksdóttir,Reykjavík suður.

Borgarahreyfingin:
Þráinn Bertelsson, Reykjavík norður, Þór Saari, Suðvesturkjördæmi, Birgitta Jónsdóttir, Reykjavík suður, Margrét Tryggvadóttir, Suðurkjördæmi.  

Samfylkingin:
Valgerður Bjarnadóttir,Reykjavík norður, Ólína Þorvarðardóttir, Norðvesturkjördæmi, Oddný G. Harðardóttir, Suðurkjördæmi, Róbert Marshall, Suðurkjördæmi, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Norðausturkjördæmi, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Norðausturkjördæmi,  Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Reykjavík suður, Skúli Helgason, Reykjavík suður, Magnús Orri Schram, Suðvesturkjördæmi.   

Þeir þingmenn, sem sóttust eftir endurkjöri en náðu ekki, eru Arnbjörg Sveinsdóttir, Ásta Möller og Sigurður Kári Kristjánsson,og Kjartan Ólasfsson,sem sátu á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn, Helga Sigrún Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokks, Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður VG, og Guðjón A. Kristjánsson, Grétar Mar Jónsson og Karl Matthíasson, þingmenn Frjálslynda flokksins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert