Árni Johnsen niður um þingsæti

Árni Johnsen.
Árni Johnsen.

Í alþingiskosningunum í gær strikuðu 17% kjósenda Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi yfir nafn Árna Johnsen og færist hann niður um eitt þingsæti. Þetta þýðir að Unnur Brá Konráðsdóttir, sem er nýr þingmaður, verður annar þingmaður Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu og færist upp fyrir Árna.

Í heildina var 24,4% atkvæða Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi breytt, að sögn Karls Gauta Hjaltasonar, formanns yfirkjörstjórnar í kjördæminu. Fyrir tveimur árum var strikað yfir nafn Árna á 22% atkvæða og þá færðist hann einnig niður um þingsæti.

Björgvin G. Sigurðsson lenti í útstrikunum að þessu sinni og var hann strikaður út af 8,3% kjósenda Samfylkingar. Það mun þó ekki hafa áhrif á röðunina á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.

Í Suðvesturkjördæmi var fjórum til fimm þúsund atkvæðaseðlum breytt. Jónas Þór Guðmundsson, formaður yfirkjörstjórnar, segir að engar vísbendingar séu um að breyttir seðlar muni hafa áhrif á röðun á listum. Í Norðvesturkjördæmi var töluvert um útstrikanir en þær voru ekki það margar að það nægði til þess að breyta röðun, að sögn Ríkharðs Mássonar, formanns yfirkjörstjórnar. Ríkharður segir að Ólína Þorvarðardóttir, frambjóðandi Samfylkingarinnar, hafi oftast verið strikuð út eða 181 sinni. Jón Bjarnason og Lilja Rafney Magnúsdóttir hjá Vinstri grænum urðu líka fyrir barðinu á pennum en þau voru bæði með á annað hundrað útstrikanir. Einar K. Guðfinnsson og Ásbjörn Óttarsson voru einnig strikaðir oft út.

Útstrikanir voru tiltölulega fáar í Norðausturkjördæmi og hafa þær ekki áhrif á röð frambjóðenda. Kristján Þór Júlíusson og Birkir Jón Jónsson voru oftast strikaðir út og fengu báðir á þriðja hundrað strik yfir nafn sitt.

8,3% kjósenda Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi strikuðu yfir nafn Björgvins G. …
8,3% kjósenda Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi strikuðu yfir nafn Björgvins G. Sigurðssonar. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert