„Ég tek þessu með stóískri ró. Þetta er bara starf og ekkert merkilegra en önnur störf,“ sagði Margrét Tryggvadóttir, eini þingmaður Borgarahreyfingarinnar utan höfuðborgarsvæðisins.
Margrét sagði að það færi eftir ýmsu hvort Borgarahreyfingunni tækist að fá málum sínum framgengt á Alþingi. Enn væri óvíst hverjir mynduðu stjórn.
Margrét hefur ekki áður tekið þátt í pólitísku starfi og kveðst ekki hafa haft geð í sér lengi til að kjósa fjórflokkinn. Hún kvíðir í engu starfinu á Alþingi. „Ég hef unnið við ýmiss konar greiningu og ég held að þetta sé ekkert ósvipað,“ sagði hún.