Evrópumálin erfiðust

mbl.is/Ómar

Jóhanna Sigurðardóttir sagði í umræðuþætti flokksleiðtoga í Sjónvarpinu í kvöld, að Evrópumálin væru erfiðasta úrlausnarefnið í viðræðum Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs um myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Jóhanna sagði, að á fundi forustumanna flokkanna tveggja í dag hefðu farið fram hreinskiptar umræður um málið. Hún sagðist telja að flokkarnir yrðu fljótir að ná samkomulagi um önnur mál.  

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, tók undir að Evrópumálin væru stórt, erfitt og óbrúað ágreiningsmál. Steingrímur sagðist hins vegar vera ósammála þeirri túlkun á kosningaúrslitunum, að Evrópumálin væru stærsta viðfangsefnið nú. Hann hefði miklu meiri áhyggjur af því, sem þyrfti að gera fyrir fjölskyldur og fyrirtæki á Íslandi á næstu mánuðum en hvort sækja eigi um aðild að Evrópusambandinu. 

Steingrímur sagði, að VG væri stærsti sigurvegari kosninganna og hefði ekki þá stefnu, að sækja eigi um aðild að Evrópusambandinu.  „Við erum ekki upp við vegg, við erum í miklu sterkari stöðu en áður," sagði Steingrímur og bætti við að  VG væri stór og öflugur flokkur sem gæti haldið fram sínum málstað.  

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði ljóst, að Steingrímur væri hugsi eftir fund hans og Jóhönnu í dag og spurði, hvort ekki væri nú að koma á daginn, að þetta mál geti orðið þessum tveimur flokkum mjög erfitt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka