Framtíð okkar ræðst á næstu dögum

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins hlýðir á fyrstu tölur …
Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins hlýðir á fyrstu tölur í gærkvöld. mbl.is/Kristinn

„Það eru auðvitað all­ir svekkt­ir með þessa niður­stöðu. Við hefðum þurft að tvö­falda fylgið í Norðvest­ur­kjör­dæmi, okk­ar sterk­asta vígi, til að ná inn manni,“ seg­ir Guðjón Arn­ar Kristjáns­son, formaður Frjáls­lynda flokks­ins.

Frjáls­lyndi flokk­ur­inn fékk 4.148 at­kvæði í kosn­ing­un­um í gær eða 2,2%. Í alþing­is­kosn­ing­un­um 2007 fengu frjáls­lynd­ir 7,3% og fjóra menn kjörna. Flokk­ur­inn fékk aðeins 5,3% at­kvæða í Norðvest­ur­kjör­dæmi, helsta vígi frjáls­lyndra frá stofn­un en í kosn­ing­un­um 2007 fékk flokk­ur­inn 13,6% í NV-kjör­dæmi.

„Ég er ekki að ná þeirri stöðu í mínu kjör­dæmi sem ég hafði von­ast eft­ir. En ég held að ég hafi verið mjög sam­kvæm­ur sjálf­um mér í mín­um mál­flutn­ingi í gegn­um tíðina og staðið fyr­ir góð mál og flokk­ur­inn í heild sinni hef­ur staðið fyr­ir góð mál.“

Guðjón Arn­ar seg­ir nokkr­ar lík­leg­ar skýr­ing­ar á fylg­is­hrun­inu.

„Við náðum í skoðana­könn­un­um ekki fram fylgisaukn­ingu á landsvísu. Þegar maður fær slík­ar raðkann­an­ir slag í slag, fyr­ir kosn­ing­ar, þá hef­ur það sín áhrif. Svo er því ekk­ert að leyna að bæði Sam­fylk­ing­in og Vinstri græn­ir taka að hluta til upp, okk­ar áhersl­ur varðandi sjáv­ar­út­vegs­mál­in. Og þegar það kem­ur upp að lík­legt er að þess­ir flokk­ar nái sam­an um áfram­hald­andi stjórn, þá er lík­legt að marg­ir hugsi sem svo, hvort ekki sé rétt að reyna að tryggja fram­gang þeirra mála með því að halla sér að þeim.“

Guðjón Arn­ar seg­ir að ekki megi líta fram­hjá harðvítug­um inn­an­flokksátök­um, þau séu alltaf nei­kvæð.

„Menn fóru nátt­úru­lega með all­ar deil­ur í flokkn­um beint út í fjöl­miðla og það var eig­in­lega rif­ist um allt sem menn greindi á um. Þetta var miklu frek­ar ágrein­ing­ur milli ein­stak­linga frek­ar en ágrein­ing­ur um stefnu.“

Guðjón Arn­ar seg­ist nú munu kalla sam­an fram­kvæmda­stjórn flokks­ins og í fram­hald­inu boða til miðstjórn­ar­fund­ar þar sem framtíðin verður rædd og hvernig menn vilja vinna með þessa niður­stöðu.

„Þetta ræðst á næstu dög­um, við verðum fljót að fara í gegn­um það. Það er ekki langt í sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­ar ef menn vilja vinna á þeim vett­vangi þá er það auðvitað nær­tækt. En ég ekki von á því að við leggj­um niður okk­ar mál­flutn­ing. Við mun­um ör­ugg­lega standa vakt­ina um okk­ar áhersl­ur. Það er mitt mat að okk­ar rödd sé nauðsyn­leg og ég held að sjáv­ar­út­vegs- og byggðamál­in hefðu aldrei kom­ist á þann stað sem þau eru í dag ef við hefðum ekki haldið þeirri umræðu uppi,“ seg­ir Guðjón Arn­ar Kristjáns­son, formaður Frjáls­lynda flokks­ins.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert