Framtíð okkar ræðst á næstu dögum

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins hlýðir á fyrstu tölur …
Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins hlýðir á fyrstu tölur í gærkvöld. mbl.is/Kristinn

„Það eru auðvitað allir svekktir með þessa niðurstöðu. Við hefðum þurft að tvöfalda fylgið í Norðvesturkjördæmi, okkar sterkasta vígi, til að ná inn manni,“ segir Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins.

Frjálslyndi flokkurinn fékk 4.148 atkvæði í kosningunum í gær eða 2,2%. Í alþingiskosningunum 2007 fengu frjálslyndir 7,3% og fjóra menn kjörna. Flokkurinn fékk aðeins 5,3% atkvæða í Norðvesturkjördæmi, helsta vígi frjálslyndra frá stofnun en í kosningunum 2007 fékk flokkurinn 13,6% í NV-kjördæmi.

„Ég er ekki að ná þeirri stöðu í mínu kjördæmi sem ég hafði vonast eftir. En ég held að ég hafi verið mjög samkvæmur sjálfum mér í mínum málflutningi í gegnum tíðina og staðið fyrir góð mál og flokkurinn í heild sinni hefur staðið fyrir góð mál.“

Guðjón Arnar segir nokkrar líklegar skýringar á fylgishruninu.

„Við náðum í skoðanakönnunum ekki fram fylgisaukningu á landsvísu. Þegar maður fær slíkar raðkannanir slag í slag, fyrir kosningar, þá hefur það sín áhrif. Svo er því ekkert að leyna að bæði Samfylkingin og Vinstri grænir taka að hluta til upp, okkar áherslur varðandi sjávarútvegsmálin. Og þegar það kemur upp að líklegt er að þessir flokkar nái saman um áframhaldandi stjórn, þá er líklegt að margir hugsi sem svo, hvort ekki sé rétt að reyna að tryggja framgang þeirra mála með því að halla sér að þeim.“

Guðjón Arnar segir að ekki megi líta framhjá harðvítugum innanflokksátökum, þau séu alltaf neikvæð.

„Menn fóru náttúrulega með allar deilur í flokknum beint út í fjölmiðla og það var eiginlega rifist um allt sem menn greindi á um. Þetta var miklu frekar ágreiningur milli einstaklinga frekar en ágreiningur um stefnu.“

Guðjón Arnar segist nú munu kalla saman framkvæmdastjórn flokksins og í framhaldinu boða til miðstjórnarfundar þar sem framtíðin verður rædd og hvernig menn vilja vinna með þessa niðurstöðu.

„Þetta ræðst á næstu dögum, við verðum fljót að fara í gegnum það. Það er ekki langt í sveitarstjórnarkosningar ef menn vilja vinna á þeim vettvangi þá er það auðvitað nærtækt. En ég ekki von á því að við leggjum niður okkar málflutning. Við munum örugglega standa vaktina um okkar áherslur. Það er mitt mat að okkar rödd sé nauðsynleg og ég held að sjávarútvegs- og byggðamálin hefðu aldrei komist á þann stað sem þau eru í dag ef við hefðum ekki haldið þeirri umræðu uppi,“ segir Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert