„Þetta er mjög heillandi starfsvettvangur,“ segir Sigmundur Ernir Rúnarsson, Samfylkingunni, en hann var í öðru sæti á lista flokksins í Norðausturkjördæmi. Sigmundur Ernir kemur inn sem nýr þingmaður og segist hlakka til að takast á við krefjandi og erfitt starf.
„Ég hef verið í 20 til 30 ár á vettvangi stjórnmálanna sem blaða- og fréttamaður og hef því kynnst starfinu með þeim hætti. Ég hef vitaskuld mínar hugmyndir um hvernig eigi að vinna sem þingmaður. Fyrst og fremst þurfa þingmenn, við þær erfiðu aðstæður sem nú eru uppi í þjóðfélaginu, að vinna með fólkinu. Ekki síst á sviði atvinnumála. Það þarf að auka samstarf milli þings og þjóðar. Þingmenn þurfa að vera meira með fólkinu í landinu heldur en embættismönnum.“