Niðurstaða alþingiskosninganna á Íslandi hefur vakið athygli víða um heim í nótt og segja margir af helstu fréttamiðlum heims frá úrslitunum. Fjöldi erlendra fréttamanna hefur fylgst með lokaspretti kosningabaráttunnar og kosningunum sjálfum.
Bandaríska blaðið New York Times segir m.a. í ýtarlegri umfjöllun, að Íslendingar hafi refsað Sjálfstæðisflokknum fyrir hrun efnahagslífsins og veitt vinstriflokkunum tveimur, sem hafa verið í minnihlutastjórn, formlegt umboð til að mynda nýja ríkisstjórn.
Aðrir miðlar fjalla um kosningarnar með svipuðum hætti. Reuters segir, að Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, hafi lýst yfir sigri og AFP fréttastofan segir, að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi viðurkennt ósigur flokksins.