Lýðræðishreyfingin líklega fram á ný

Ástþór Magnússon skilar atkvæði sínu í kosningunum.
Ástþór Magnússon skilar atkvæði sínu í kosningunum. mbl.is/Golli

„Lýðvarpið mun halda áfram. Ég hef hins vegar búið og starfað erlendis undanfarið og fer aftur út eftir nokkra daga,“ segir Ástþór Magnússon aðspurður um næstu skref Lýðræðishreyfingarinnar. Ástþór segir ónóga kynningu á hugmyndafræði hreyfingarinnar hafa haft mikil áhrif á niðurstöðu kosninganna. Hann útilokar ekki að Lýðræðishreyfingin bjóði fram aftur, jafnvel á sveitarstjórnarstigi og þá næsta vor.

Lýðræðishreyfingin fékk aðeins 1107 atkvæði í kosningunum í gær. „Þessi niðurstaða endurspeglar þá staðreynd að við vorum útilokuð frá ríkisfjölmiðlunum, þ.e. fyrir utan síðustu daga fyrir kosningar. Og það er allt of stuttur tími til að koma fram með nýtt framboð og nýja hugmyndafræði. Þannig að við vorum alls ekki á jafnréttisgrundvelli,“ segir Ástþór sem vinnur að skýrslu um fjölmiðlaumfjöllun í kosningabaráttunni. Hann segir margt áhugavert eiga eftir að koma fram í henni.

Ástþór segir ástæður útilokunnar á RÚV vera þær að yfirstjórn opinbera hlutafélagsins sé pólitískt skipuð. Hann segir Borgarahreyfinguna hafa fengið óeðlilega mikinn tíma í ljósvökunum, og minnist þar m.a. á borgarafundina. „Því er ranglega haldið fram að Borgarahreyfingin sé níu vikna gömul. Hún byrjaði í nóvember með borgarafundum, og þetta er allt sama fólkið.“ Hann segir einnig skýr tengsl á milli þess og að einn forsvarsmanna hreyfingarinnar er starfsmaður RÚV.

Ástþór segir ekki ólíklegt að Lýðræðishreyfingin muni reyna á nýjan leik að koma hugmyndafræði sinni á framfæri með framboði. Hann segist þó ekki geta sagt til um með hvaða hætti eða í hvaða kosningum. „Hugmyndafræðin um beint og milliliðalaust lýðræði mun koma fram, hún á bara eftir að fá meiri kynningu. En þetta er rétt að byrja fæðast og þetta er hugmynd sem gjörbyltir stjórnmálunum og færir vald til fólksins.“ Hann segir hana ganga jafnvel á sveitastjórnarstigi og jafnvel í stórum fyrirtækjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert