Siv Friðleifsdóttir, efsti maður á lista Framsóknarflokksins í Suðvestukjördæmi, segir ómögulegt á þessu stigi að spá í stöðuna að loknum kosningum. Svo virðist sem Samfylkingin verði í lykilstöðu varðandi stjórnarmyndun og hún geri ráð fyrir að forsvarsmenn hennar reyni fyrst nýja stjórnarmyndun með Vinstri grænum.
Framsóknarmenn séu hins vegar tilbúnir til að axla ábyrgð og taka þátt í framsýnni ríkisstjórn náist um það samkomulag. „Við erum tilbúin til að takast á við þau erfiðu mál sem fyrir liggja," sagði hún. „Við höfum mikla reynslu og erum vön því að þurfa að taka á stórum málum."
Siv sagðist mjög ánægð með þær tölur sem fyrir lágu í hennar kjördæmi er blaðamaður mbl.is ræddi við hana um klukkan hálf eitt. „Við erum að sækja á," sagði hún. „Þetta hefur verið ótrúlega stutt kosningabarátta og við höfum fundið aukinn meðbyr með hverjum degi að undanförnu. Ég held að hefðum við haft viku til viðbótar hefði staðan jafnvel getað orðið enn betri."
Siv sagði það hafa verið einkennilega tilfinningu er hún mældist úti í skoðanakönnun sem birt var 8. apríl á sama tíma og Framsóknarflokkurinn hafi mælst með meira fylgi en í síðustu kosningum. Hún hafi þá hellt sér í hörkukosningabaráttu og geti ekki annað en fagnað þeim árangri sem hún hafi skilað.