Stranda ekki á Evrópumálum

Steingrímur J. og Katrín Jakobsdóttir hittu Jóhönnu og Dag B. …
Steingrímur J. og Katrín Jakobsdóttir hittu Jóhönnu og Dag B. Eggertsson á heimili Jóhönnu í dag. mbl.is/Ómar

„Þetta var ágætur fundur. Við fórum vítt og breitt yfir málin og þessum viðræðum verður haldið áfram á morgun,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar að loknum fundi með formanni og varaformanni VG. Spurð hvort að viðræður strandi á Evrópumálum sagði Jóhanna svo ekki vera, farið hafi verið vel yfir þau mál. Hún sagði viðræðurnar lofa góðu fyrir framhaldið.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og Katrín Jakobsdóttir, varaformaður VG gengu á fund Jóhönnu Sigurðardóttur, formanns Samfylkingarinnar og Dags B. Eggertssonar, varaformanns Samfylkingarinnar á þriðja tímanum til að ræða áframhaldandi stjórnarsamstarf flokkanna.

Þingflokkar koma saman á morgun og þá mun Jóhanna Sigurðardóttir einnig ganga á fund Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands og gera honum grein fyrir stöðunni að loknum kosningum.

Jóhanna sagði að viðræðum fulltrúa flokkanna yrði fram haldið á morgun.

Steingrímur vildi engar yfirlýsingar gefa eftir fundinn. Hann sagði fundinn góðan og gagnlegan. Hann gaf ekkert út á hvort hann væri bjartsýnn á framhaldið. Spurður út í lengd fundarins - hann stóð í tæpar þrjár klukkustundir - sagði Steingrímur hana skýrast af góðum veitingum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert