Þingað um nýja stjórn

Steingrímur J. og Katrín Jakobsdóttir koma til funda við Jóhönnu …
Steingrímur J. og Katrín Jakobsdóttir koma til funda við Jóhönnu á heimili hennar. mbl.is/Ómar

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og Katrín Jakobsdóttir, varaformaður VG ræða nú við Jóhönnu Sigurðardóttur, formann Samfylkingarinnar og Dag B. Eggertsson, varaformann Samfylkingarinnar um áframhaldandi stjórnarsamstarf flokkanna. Jóhanna hyggst leita eftir fundi forseta í framhaldi viðræðum við VG. Þingflokkar VG og Samfylkingar verða kallaðir til fundar á morgun.

Steingrímur og Katrín komu til fundar við Jóhönnu á heimili hennar á þriðja tímanum. Jóhanna sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að um óformlegan fund yrði að ræða. Þá sagði Steingrímur J. að gengið yrði vasklega til verks.

„Við erum saman í ríkisstjórn og fengum gríðarlega góðan stuðning frá þjóðinni til að halda því áfram. Það væri nú afar óhefðbundið ef að flokkar sem hafa verið í góðu samstarfi og sem að engan skugga hefur borið á byrjuðu ekki á að ræða saman um framhaldið,“ sagði Steingrímur J.

Jóhanna segir ekkert liggja á. Þau Steingrímur muni ræðast við í dag og hún leita eftir fundi forseta í framhaldi af þeim viðræðum. „Það er nauðsynlegt að fá ákveðnar skýrar línur, t.d. varðandi aðildina að ESB sem að við leggjum mikla áherslu á.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert