Úrslitin persónuleg vonbrigði

Kolbrún Halldórsdóttir féll út af þingi í kosningunum í gær.
Kolbrún Halldórsdóttir féll út af þingi í kosningunum í gær. mbl.is/Ómar

„Þetta eru auðvitað vonbrigði fyrir mig persónulega. En auðvitað opnast um leið brjálæðislega mörg tækifæri. Ég er hvergi bangin,“ segir Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra.

Kolbrún skipaði þriðja sæti á lista VG í Reykjavík suður og er eini ráðherrann sem náði ekki endurkjöri. Hún segist ekki viss um hvað taki við, en margt brjótist um í kollinum. Þá sé enginn öfundsverður af því að þurfa að takast á við verkefnin og þá erfiðu tíma sem eru framundan næstu misserin.

„Ég velti líka aðeins fyrir mér hve þetta þing er reynslulítið, með svo mikið af nýju fólki. Árið 2007 var mjög mikil endurnýjun svo stór hluti þeirra þingmanna sem sitja áfram frá síðasta þingi hefur bara verið þar í tvö ár.“

Aðspurð segist Kolbrún ekki telja að ummæli sín um olíuleit á Drekasvæðinu hafi leitt til minna kjörfylgis Vinstri grænna heldur en búist var við.

„Þá hefði sennilega orðið minna fylgi í Norðausturkjördæmi. Ég hef ekki trú á því. En við þekkjum þetta, okkur hefur ævinlega gengið betur í skoðanakönnunum en í kosningum.“
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert