Starfshópur um Evrópumálin

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, oddvitar ríkisstjórnarflokkanna.
Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, oddvitar ríkisstjórnarflokkanna. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Ég er ekkert viss um að það sé langt í land,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar í samtali við Sjónvarpið í kvöld aðspurð um samkomulag um Evrópumálin. Jóhanna kvaðst vera bjartsýn á framhald stjórnarmyndunarviðræðnanna eftir fund forustumanna Samfylkingarinnar og VG í dag.

Jóhanna sagði það einlægan vilja beggja flokkanna að ná saman um áframhaldandi samstarf. Hún kvaðst telja að það dygði til að ná niðurstöðu í málunum sem rædd eru, líka í Evrópusambandsmálunum. 

Steingrímur J. Sigfússon neitaði því í samtali við Sjónvarpið að VG sé að gefa eftir í Evrópumálunum. Hann sagði að þau væru bjartsýn því til staðar sé eindrægur vilji. „Við ætlum að fara vel með þetta sögulega tækifæri sem við vinstri menn höfum nú fengið í hendur til að mynda hér trausta meirihluta-, velferðar- og endurreisnarstjórn í besta norræna anda,“ sagði Steingrímur í samtali við Sjónvarpið.  „Við ætlum okkur að leysa þau mál sem við þurfum að leysa til þess að þetta tækifæri gangi okkur ekki úr greipum.“ 

Á fundinum í dag var ákveðið að skipa starfshóp undir forystu þeirra Dags B. Eggertssonar, varaformanns Samfylkingarinnar, og Katrínar Jakobsdóttur, varaformanns VG, til að ræða málin varðandi Evrópusambandið. „Við erum ákveðin í að leysa það mál,“ sagði Jóhanna. Skipa á annan starfshóp til að skoða stjórnkerfisbreytingar. 

Jóhanna sagði að þau hafi ekki sett sér nein tímamörk í viðræðunum og taldi þau ekki þurfa. Meirihlutastjórn sé í landinu og mun hún hittast á ríkisstjórnarfundi á morgun. Hún sagði eindreginn vilja beggja flokka til að ná niðurstöðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert