Þær eru sögulegar kosningarnar sem nú eru nýafstaðnar í mörgu tilliti, ekki síst fyrir þær sakir að aldrei fyrr hefur hlutur kvenna á þingi verið jafnmikill. 43% þingmanna sem náðu kjöri eru konur. Hlutfallið var 31,2% eftir síðustu kosningar og ekki er lengra síðan en árið 1983 að hlutfallið var aðeins 15%. Þessi niðurstaða skýtur Íslendingum upp í fjórða sætið úr því fimmtánda á alþjóðlegum lista yfir hlutfall kvenna á þjóðþingum heimsins. Aðeins Rúanda, Svíþjóð og Kúba standa sig betur.
Hjá þremur flokkum sem náðu kjöri til Alþingis er kynjahlutfall þingmanna jafnt, þ.e. hjá Samfylkingu, Vinstri grænum og Borgarahreyfingunni. Hjá VG og Samfylkingu er það í takt við kynjahlutföll á framboðslistum fyrir kosningarnar. Báðir flokkarnir lögðu áherslu á jafnt hlutfall við uppröðun á lista sína, m.a. með kynjakvótum og fléttulistum. Myndin er hins vegar allt önnur hjá Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Þar voru hlutföll kynjanna nokkuð jöfn á framboðslistum en það skilaði sér ekki upp úr kjörkössunum: Aðeins 5 af 16 þingmönnum Sjálfstæðisflokksins eru konur eða 31,25% og 3 af 9 þingmönnum Framsóknarflokksins eða 33,3%.
Skýringin felst m.a. í gengi kvenna á landsbyggðinni. Í Norðvestur- og Norðausturkjördæmi fá konur mjög slæma kosningu, aðeins fjórir af 19 þingmönnum þessara tveggja kjördæma eru konur, eða 21%. Allt annað er uppi á teningnum í Suður- og Suðvesturkjördæmi, þar eru kynjahlutföllin hnífjöfn. En hvað veldur því að konur eiga erfiðara uppdráttar á landsbyggðinni? Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, telur skýringuna felast í hörðum slag um fá þingsæti – gömlu jaxlarnir, sem yfirleitt eru karlar, nái betur að fóta sig. Þetta er að mati Kristínar sérstaklega slæmt þar sem konur eigi almennt erfiðara uppdráttar á landsbyggðinni, t.a.m. sýni ný rannsókn að launamunur kynjanna þar sé 38%.
En góðu fréttirnar felast m.a. í endurnýjun á þinginu. Sé litið til nýrra þingmanna eru kynjahlutföllin eins jöfn og mögulegt getur orðið: 14 karlar og 13 konur.
En hvaða máli skiptir að jafna kynjahlutföll á Alþingi? Sú einfalda staðreynd að konur eru helmingur þjóðarinnar ættu að vera næg rök út af fyrir sig en einnig er oft talað um að konur standi fyrir gildi sem nú eiga upp á pallborðið í þjóðfélaginu: Náttúruvernd og velferð. Þá nefnir Kristín Ástgeirsdóttir að fyrirtækjarannsóknir sanni að jafnt kynjahlutfall í stjórnun leiði til farsælli lausna og betri afkomu.