Ljóst að kjósendur óska eftir aðildarviðræðum við ESB

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.

„Þetta eru frábær tímamót í íslensku samfélagi og hér hefur orðið gjörbreyting á pólitíska landslaginu. Það er augljóst að kjósendur eru að óska eftir því að farið verði í aðildarviðræður. Svo finnst mér þetta náttúrlega tímamótasigur fyrir íslenskar konur, að fjöldi þingkvenna sé kominn yfir 40%.“

Þetta segir Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, sem er nýr þingmaður í Reykjavíkurkjördæmi suður. Sigríður skipaði annað sæti á lista Samfylkingarinnar í kjördæminu.

Sigríði líst vel á nýja starfið en segist um leið meðvituð um það að ekki verður einfalt að vinna að því uppbyggingarstarfi sem framundan er. Það muni reyna á, ekki bara á ríkisstjórnina, heldur þurfi þingmenn að starfa saman að þessu og fá sem flesta í lið með sér. Mikilvægt sé að stuðla að samvinnu og samstöðu.

Sigríður vonar að ólík sjónarmið Vinstri grænna og Samfylkingarinnar í Evrópumálum muni ekki koma í veg fyrir áframhaldandi samstarf ríkisstjórnarflokkanna.

„Það kom skýrt fram hjá Jóhönnu Sigurðardóttur í gær [laugardag] að það væri vilji til viðræðna við VG og að svo búnu held ég að ekki sé verið að huga að neinu öðru, enda hafa þau þegar fundað, hún og Steingrímur. Eins og í öllum samningaviðræðum þarf fólk bara að ræða saman. Við höfum ekki farið á þingflokksfund svo maður áttar sig ekki á því enn hvernig landið liggur.“

Sjálf segist hún, eins og flestir aðrir í Samfylkingunni, vonast eftir áframhaldandi samstarfi. „Flokkarnir eru auðvitað með mismunandi stefnu um Evrópusambandið en Vinstri grænir eru lýðræðislegur flokkur sem hefur lýst því yfir að hann vilji að þjóðin fái að segja sitt í þessum efnum. Það gerði hún í þessum kosningum. Ég á ekki von á að þetta verði ásteytingarefni og geri ráð fyrir að lausn verði fundin sem báðir flokkar geta sætt sig við.“

Sigríður bendir á að bæði Framsóknarflokkurinn og Borgarahreyfingin hafi lýst yfir vilja til aðildarviðræðna. Auk þess hafi ýmsir þingmenn Sjálfstæðisflokksins tekið undir þær óskir og sagt að niðurstaða landsfundar þeirra hafi valdið þeim vonbrigðum. Í ljósi þessa má telja að þingmeirihluti sé fyrir málefninu.

Í kosningabaráttunni var ekki rætt um ráðherraval, en aðspurð bendir Sigríður á að mikil ánægja hafi verið með störf fagráðherranna, Rögnu Árnadóttur og Gylfa Magnússonar. Hún gerir því allt eins ráð fyrir að áfram verði óskað eftir þeirra liðsinni. Það muni koma í ljós þegar áherslur skýrist í mögulegu stjórnarsamstarfi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka