„Þetta verður leyst með einhverjum hætti,“ sagði Ásmundur Einar Daðason, sauðfjárbóndi á Lambeyrum í Dalasýslu, þegar hann var spurður hver myndi leysa hann af í sauðburðinum í vor, en Ásmundur var kjörinn alþingismaður um helgina. Ekki eru nema 2-3 vikur í að sauðburður hefjist af fullum krafti á Lambeyrum, en það er annasamasti tími ársins hjá sauðfjárbændum.
Þegar Morgunblaðið ræddi við Ásmund í gær var hann ásamt föður sínum, Daða Einarssyni, bónda á Lambeyrum, að fara yfir hvernig best væri að skipuleggja vinnuna við sauðburðinn. Daði, Ásmundur og Sunna Birna Helgadóttir, kona hans, eru með um 1.300 fjár.
Ásmundur sagði að síðustu dagar væru búnir að vera annasamir hjá sér eins og öðrum frambjóðendum. „Norðvesturkjördæmi er stórt og mikið kjördæmi og við vorum að tala um það undir lok kosningabaráttunnar að það yrði gott að komast í sauðburðinn,“ sagði Ásmundur brosandi, en á stórum sauðfjárbúum þarf að hafa sólarhringsvakt í fjárhúsunum meðan á sauðburðinum stendur. Ásmundur sagði óljóst hvernig næstu vikur yrðu hjá sér, en hann kvaðst vonast eftir að hann gæti tekið einhvern þátt í sauðburðinum.
Ásmundur er yngstur þeirra þingmanna sem kosnir voru á þing, en hann er 26 ára gamall. Hann er sömuleiðis eini bóndinn sem náði kjöri á þing.
Það er orðið langt síðan Dalamenn áttu þingmann. Síðasti Dalamaðurinn sem sat á þingi sem aðalmaður var Friðjón Þórðarson, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sem hætti á þingi 1991. Ásgeir Bjarnason, bóndi í Ásgarði í Dölum, sat einnig á þingi áratugum saman og var um tíma forseti Alþingis.