Steingrímur J. gæti notað Guðjón A.

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins
Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins mbl.is/Kristinn

Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins og fyrrum þingmaður, hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort hann þiggi óformlegt boð Steingríms J. Sigfússonar um vinnu í sjávarútvegsráðuneytinu berist það formlega.

„Auðvitað hef ég áhuga á sjávarútvegsmálum og byggðamálum og öllu sem því tengist, þannig að það kemur í ljós hvort eitthvað slíkt stendur til boða. Þá tek ég afstöðu til þess ef að það berst.“

Spurður hvort hann muni ekki leita til Steingríms að fyrra bragði og fá hann til að efna orð sín verði hann áfram í sjávarútvegsráðuneytinu svarar Guðjón: „Ég ætla nú ekki að tjá mig um það. Ef menn ráða sig í vinnu, þá ráða menn sig á eigin forsendum.“ Hann skoði stöðuna og hvað hann taki sér fyrir hendur nú þegar þingmennskunni lýkur.

„Ég hef nú aldrei verið lengi atvinnulaus. Það er fjölmargt sem ég get farið að gera. Ég hef ekki miklar áhyggjur af sjálfum mér." Hann sé ekki eini Íslendingurinn sem standi nú frammi fyrir því að vera að missa vinnuna, því miður séu margir í sömu stöðu.

Steingrímur sagði í leiðtogaumræðum á Ríkissjónvarpinu í gærkvöld, þar sem leiðtogar flokkanna fóru yfir úrslit kosninganna og spáðu í spilin, að hann hefði þegar hringt í Guðjón og nefnt við hann að ef hann yrði eitthvað lengur í sjávarútvegsráðuneytinu væri viðbúið að hann hóaði í hann. „Varstu með eitthvað ákveðið í huga?“ spurði Sigmar Guðmundsson, spyrill í þættinum. Og Steingrímur svaraði:

„Nei, ég tek undir að það verði eftirsjá af Guðjóni og hann hefur lagt gífurlega mikið af mörkum til umræðunnar, ekki síst um sjávarútvegsmálin.“ Þeir hafi rætt þau mikið í Vonarstræti 12, þar sem þeir deildu skrifstofuhúsnæði. Guðjón sé alkunnur áhugamaður og eljumaður og eftirsjá af honum af þingi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka