Ekkert liggur á stjórnarsáttmála

Ríkisstjórnin kom saman til fundar í morgun. Fjármálaráðherra reiknar ekki með því að þetta verði síðasti fundurinn í óbreyttri ríkisstjórn því forystumenn stjórnarflokkana ætla að taka sér góðan tíma í stjórnarmyndun. Í dag hittast starfshópar eftir hádegið en formennirnir hittast klukkan fimm. Það er þó óvíst að ,,norræna velferðarstjórnin,” hittist í Norræna húsinu því þar er allt fullbókað.

Steingrímur segir ríkisstjórnina hafa traustan þingmeirihluta og því liggi ekki á að klára stjórnarsáttmálann. Það sé mikill misskilningur að það eina sem hlutirnir snúist um þessa dagana sé ESB. Mörg stór og erfið verkefni bíði ríkisstjórnarinnar.

Forsætisráðherra hefur þó sagt að Evrópumálin verði sett á oddinn í stjórnarmyndunarviðræðum en þau séu  það eina sem ósamkomulag er um. Steingrímur neitar því ekki að þetta mál sé fremst í röðinni en fleiri starfshópar verði skipaðir í kvöld um fjármál. efnahagsmál, atvinnu og auðlindarmál.

Hann segir ekki ákveðið hvort stokkað verði upp í ríkisstjórninni en oftast sé farið yfir verkaskiptinguna í lokin. Þrír ráðherrar sitja ekki á þingi, utanþingsráðherrarnir Ragna Árnadóttir og Gylfi Magnússon og Kolbrún Halldórsdóttir sem féll út af þingi. Gylfi Magnússon útilokaði ekki að sitja áfram ef til hans yrði leitað en sagðist ekki gráta það þótt hann þyrfti að snúa aftur í prófessorsstöðu í Háskólanum.

Kolbrún Halldórsdóttir væri mjög til í að gegna embætti umhverfisráðherra áfram. Hún útilokar ekki að hún hafi klúðrað sínum pólitíska ferli vegna ummæla sinna um olíuleit á Drekasvæðinu. Hún hafi staðið föst á sinni sannfæringu um að horfa ætti til heildarhagsmuna þegar teknar væru ákvarðanir um auðlindanýtingu. Hugmyndir um sjálfbæra þróun ættu að vera leiðarljós og því ætti að stefna að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert